Heilsustefna – þín þátttaka

Fréttir

Drög að heilsustefnu Hafnarfjarðar liggja nú fyrir og eru tilbúin til rýni og athugasemda. Við leitum eftir athugasemdum og ábendingum frá ykkur. Ykkar sýn, mat og þátttaka skiptir sveitarfélagið miklu máli. Vinsamlega sendið allar athugasemdir í síðasta lagi mánudaginn 6. febrúar.

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í apríl 2016
að hefja vinnu við gerð á heilsustefnu fyrir Hafnarfjörð: Hafnarfjörður –
heilsueflandi samfélag. Ákveðið var að ráðast í mótun á heilsueflandi stefnu
sem hefði áhrif á öll svið bæjarins. Stefnu sem tekur á stöðu mála og
framkvæmdaþáttum. Starfshópur var í framhaldinu skipaður til að vinna að stefnunni og sitja í
starfshópi níu fulltrúar, þrír tilnefndir af bæjarráði, tveir fulltrúar frá
fræðslu- og frístundaþjónustu, fulltrúi frá fjölskylduþjónustu, fulltrúi frá
umhverfis- og skipulagsþjónustu, fulltrúi sameiginlega frá fjármála- og
stjórnsýslusviði og framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Með hópnum
hefur starfað Sigríður Kr. Hrafnkelsdóttir, lýðheilsufræðingur og
verkefnastjóri ásamt samskiptastjóra bæjarins.

Athugasemdir og
ábendingar frá ykkur

Við leitum eftir athugasemdum og ábendingum frá ykkur. Ykkar
sýn, mat og þátttaka skiptir sveitarfélagið miklu máli. Vinsamlega sendið allar
athugasemdir á netfangið: hafnarfjordur@hafnarfjordur.is í síðasta lagi
mánudaginn 6. febrúar 2017. 

Drög að heilsustefnu Hafnarfjarðar liggja nú fyrir og eru tilbúin til rýni og athugasemda frá öllum áhugasömum – sjá HÉR

Drög að aðgerðaáætlun liggja líka fyrir – sjá HÉR

Grunnhugmyndir að baki heilsustefnu Hafnarfjarðar

Í heilsustefnu Hafnarfjarðar er eitt aðalmarkmiðið að hlúa að almennri vellíðan íbúa, andlegri og líkamlegri, á öllum aldri og hvetja til að styrkja og efla sjálfsmynd og góða líðan. M.a. er lagt til aukið samstarf við félagasamtök, fagfólk, áhugafólk og heilsugæslu vegna heilsueflingar og vellíðunar og að upplýsingagjöf verði aukin varðandi þjónustu sem er í boði á því sviði. Að byggður verði upp samstarfsvettvangur viðkomandi aðila þar um, með þátttöku ungmennaráðs, öldungaráðs, ráðgjafaráðs, nýbúaráðs og hverfisráðs. Unnið verði að verndandi þáttum gegn kvíða og vanlíðan. Að unnið verði með starfsmönnum bæjarins að því að finna leiðir sem virka sem best til framtíðar. Lagt er til að sálfræðiþjónusta verði efld innan leik- og grunnskóla bæjarins. Einnig er áhersla á að stuðlað verði að heilsusamlegu fæðuúrvali í stofnunum og mannvirkjum innan bæjarins, unnið að hvatningu og fræðslu um holla næringu, könnuð hljóðvist og tími til matar í skólum, áhersla á að minnka sóun, efla og vekja athygli á göngustígum og opnum svæðum í bænum sem útivistarsvæði fjölskyldunnar og auka aðgengi að sundlaugum bæjarins. Þegar heilsustefnan og aðgerðaráætlunin hefur verið samþykkt í bæjarstjórn hefst innleiðing hennar og eftirfylgni á öllum sviðum bæjarins. Heilsustefnan styður við þá sýn Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar að auka vellíðan íbúa bæjarins með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Sjá bókun um heilsustefnu í fræðsluráði 25. janúar 2017 – liður 10  

Sjá kynningu um heilsustefnu í bæjarráði 26. janúar – liður 3 

Fyrirfram þakkir fyrir góð viðbrögð! 

Ábendingagátt