Hraða þarf vinnu við hættumat vegna eldgosa

Fréttir

Eldgos, jarðhræringar og mikil umbrot eru að eiga sér stað í nánasta umhverfi Hafnarfjarðar. Rétt er að geta þess að ef svo ólíklega vildi til að rýma þyrfti húsnæði eða svæði innan höfuðborgarsvæðisins vegna almannavarnaástands þá er til rýmingaráætlun fyrir allt svæðið sem hægt er að  virkja. Rósa bæjarstjóri Hafnarfjarðar var með grein í Morgunblaðinu í vikunni um þá vinnu sem er að eiga sér stað við jarðskjálfta- og eldgosahættumat fyrir höfuðborgarsvæðið. Hættumat er grunnur frekari aðgerða.

Hættumat er grunnur viðeigandi viðbragða

Eldgos, jarðhræringar og mikil umbrot eru að eiga sér stað í nánasta umhverfi Hafnarfjarðar. Hugur bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og íbúa er hjá vinum okkar í Grindavík og á Reykjanesinu öllu. Náttúruhamfarirnar í bakgarðinum geta einnig ýtt undir óöryggi og jafnvel vanlíðan hjá íbúum í Hafnarfirði og víðar á höfuðborgarsvæðinu sem horfa nokkuð vanmáttug á meðan náttúran tekur völdin. Rétt er að geta þess að ef svo ólíklega vildi til að rýma þyrfti húsnæði eða svæði innan höfuðborgarsvæðisins vegna almannavarnaástands þá er til rýmingaráætlun fyrir allt svæðið sem hægt er að  virkja.

Rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið

Aðsend grein frá Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra

Rósa bæjarstjóri Hafnarfjarðar var með grein í Morgunblaðinu í gær fimmtudaginn 8. febrúar þar sem hún fer yfir þá vinnu sem á sér stað við jarðskjálfta- og eldgosahættumat fyrir höfuðborgarsvæðið. Hættumat er grunnur frekari aðgerða og ef marka má viðbrögð við greininni standa vonir til að þessari vinnu verði flýtt.

Hraða þarf vinnu við eldgosahættumat

Daglega birta fjölmiðlar álit ýmissa sérfræðinga, lærðra sem ólærðra, á mögulegum sviðsmyndum jarðskjálfta- og eldvirkni og hraunrennslis á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Koma þarf fram ýmsar persónulegar skoðanir um mótvægisaðgerðir og hvernig byggð skuli þróast á komandi árum. Gott og vel – en óneitanlega ýta sum ummælin undir ótta fólks og óvissu um framtíðina. Í skipulagsgerð undanfarinna áratuga hefur hins vegar minna farið fyrir athugasemdum, kröfum eða ábendingum opinberra stofnanna eða annarra í þessa veru en öðru máli gegnir um t.d. vatnsverndarsjónarmið og fornminjavernd sem oft setja strik í byggingaráform. Þá má ekki gleyma að jafnvel hraunavinir hafa geta tafið skipulagsferli og uppbyggingu misserum og árum saman án þess að eldvirkni eða hraunrennsli hafi komið til tals. Í einhverjum tilvikum hafa þó byggingar verið færðar til, m.a. við gerð Árbæjarlaugar í Reykjavík þegar í ljós kom sprunga á fyrirhuguðum byggingarreit og víðar hefur verið tekið tillit sprungna við skipulagsgerð nýrra hverfa.

Hættumat er grunnur frekari viðbragða

Veðurstofa Íslands vinnur nú að jarðskjálftahættumati fyrir höfuðborgarsvæðið í samstarfi við almannavarnir og fulltrúa sveitarfélaganna. Áætlað er að það verði tilbúið í vor. Sömu aðilar vinna að gerð eldgosahættumats fyrir höfuðborgarsvæðið en gert er ráð fyrir að því ljúki í lok næsta árs. Nú þegar eldgosaváin er komin fram með eldsumbrotunum á Reykjanesi er mikilvægt að þessu hættumati verði flýtt.  Þótt flestir sérfræðingar sem hafa tjáð sig um þessi mál undanfarnar vikur séu sammála um að eldgos komi ekki upp innan byggðar á höfuðborgarsvæðinu þá geti tilteknum hlutum svæðisins stafað hætta af mögulegu hraunflæði. Mikilvægt er fyrir sveitarfélögin á svæðinu að fá heildarmyndina sem fyrst með þeim sviðsmyndum sem komið geta upp út frá sameiginlegu mati og niðurstöðu opinberra aðila eins og sérfræðinga Veðurstofunnar og almannavarna. Þá fyrst er hægt að kortleggja stöðuna og hanna mótvægisaðgerðir sé ástæða til. Enginn veit þó hvort eða hvenær grípa þurfi til slíkra aðgerða en traustvekjandi er að áætlunin sé til. Þegar eldgosahættumatið hefur litið dagsins ljós er einsýnt að taka þurfi upp svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Þá þarf að rýna það með tilliti til niðurstaðna, mögulegra varnargarðagerðar í framtíðinni og fyrirhugaðrar uppbyggingar á svæðinu.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar

Ábendingagátt