Í Kaldárseli býður KFUM og KFUK upp á sumarbúðadvöl og leikjanámskeið á sumrin.

Fjölbreytt dagskrá er í boði allan daginn, sniðin að aldri og þörf hvers hóps. Að morgni dags er samverustund með fræðslu og söngvum eftir hollan og góðan morgunverð. Dagurinn er svo skipulagður með frjálsum leik, ýmsum tilboðum eins og t.d. smíðasvæði, hópleikir, íþróttakeppnir, föndur, listasmiðja. Á þessum tíma er mikið unnið í að virkja athafnaþrá, leikgleði og sköpunarþörf hvers og eins. Eftir hádegismatinn er ævintýraferð þar sem nágrenni Kaldársels er skoðað og farið í hellaferðir, fjallgöngur, ævintýraleiki í skógarrjóðrinu í Kúadal eða í Valabóli og margt fleira. Stundum er nesti með í för og borðað út í náttúrunni. Á leikjanámskeiðum eru börnin svo sótt kl 17 en í hefðbundnum dvalarflokkum (og á gistinótt leikjanámskeiða) er svo frjáls leikur með ýmsum tilboðum og svo eftir kvöldmatinn skemmta foringjar og börn sér saman á kvöldvöku með söng, leikjum, leikritum og miklu stuði. Í lok kvöldvöku er stutt hugvekja og kvöldbænir áður en allir fara í kvöldávaxtastund og svo í háttinn. Þá koma foringjar á herbergin og eru með kvöldlestur eða sögustund fyrir svefninn og koma börnunum í ró.

Í Kaldárseli leggjum við mikla áherslu á persónulega uppbyggingu barnanna sem hjá okkur eru, kennslu í félagslegum samskiptum, stuðla að vináttu þeirra á milli og að leyfa þeim að kynnast náttúrunni i leik og lífi. Allt þetta byggjum við á þeim grunni að Jesús elskar okkur eitt og hvert eins og við erum. Við erum fullkomin í hans augum og eigum að bera virðingu fyrir okkur sjálfum, þeim sem í kringum okkur eru og náttúrunni sem Guð skapaði. Þetta er kjarninn í öllu okkar starfi og leik.

Í Kaldárseli geta dvalið 40 börn í einu.

Flokkaskrá 2023:
1.fl. Leikjanámskeið | 12.06.2023-16.06.2023 | 6-9 ára (2014-2017)
2.fl. Dvalarflokkur | 19.06.2023-23.06.2023 | 8-11 ára (2012-2015)
3.fl. Leikjanámskeið | 26.06.2023-30.06.2023 | 6-9 ára (2014-2017)
4.fl. Dvalarflokkur | 03.07.2023-07.07.2023 | 9-12 ára (2011-2014)
5.fl. Leikjanámskeið | 10.07.2023-14.07.2023 | 6-9 ára (2014-2017)
6.fl. Leikjanámskeið | 17.07.2023-21.07.2023 | 6-9 ára (2014-2017)
7.fl. Leikjanámskeið | 31.07.2023-03.08.2023 | 6-9 ára (2014-2017)
8.fl. Leikjanámskeið | 08.08.2023-11.08.2023 | 7-11 ára (2012-2016)

Ábendingagátt