Íþróttir þema Menningardaga Áslandsskóla

Fréttir

Söngur og hljóðfæraleikur ómuðu um ganga Áslandsskóla á árlegri menningarhátíð skólans. Menningardagarnir hafa verið haldnir frá upphafi skólastarfseminnar. Hefðin er skemmtileg og mikil tilhlökkun hjá bæði nemendum og starfsfólki við allan undirbúning og vinnu.

Koppafeiti og Simone Biles á Menningardögum

Söngleikurinn Grease í uppsetningu 3. bekks fékk frábærar viðtökur á uppskeruhátíð Menningardaga Áslandsskóla í gær, fimmtudaginn 21. mars. Áhorfendur klöppuðu og héldu símum á lofti til að fanga frábærri uppsetningu nemendanna. Þétt skemmtidagskrá var í boði. Nemendur í 2. bekk sungu lag. Nemandi í 7. bekk spilaði á píanó en aðrir nemendur 7. bekkjar dönsuðu. Þverflauta, dans og gítarleikur lituðu því daginn og settu nemendur 10. bekkjar upp hið rómaða kaffihús, Sportás, sem er í fjáröflunarskini. Vöfflulyktin lagði um skólann.

Skólinn skreyttur listaverkum

Skólinn var sem eitt listaverk og þema menningardaga í Árlandsskóla í ár ÍÞRÓTTIR. Nemendur nýttu vikuna í kringum menningarhátíðina til undirbúnings. Hvert sem litið var mátti sjá handverk nemenda, þar sem íþróttir spiluðu aðalhlutverkið.

Hægt var að ganga í gegnum ólympíuþorpið, komast á opnunarhátíð Ólympíuleikana í París sem verða í sumar og bera ólympíueldinn augum. Fræðast mátti um hin ýmsu íþróttafélög utan að landi og sjá teikningu af hinu heimsþekkta íþróttafólki Lebron James og Simone Biles í raunstærð.

Menningardagar skreyta samfélagið í Áslandi

Menningardagar í Áslandsskóla hafa verið árlegur viðburður frá upphafi fyrir utan breytt snið í heimsfaraldrinum. Hefðin er afar skemmtileg og mikil tilhlökkun hjá bæði nemendum og starfsfólki við allan undirbúning og vinnu. Undirbúningurinn tekur dagana þrjá á undan uppskerunni.

Menningardagar hafa sett skemmtilegan svip á skólalífið og allt samfélagið í Áslandi. Mikill fjöldi gesta kemur og fagnar með nemendum og starfsfólki. Formaður fræðsluráðs og sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs voru á meðal gesta.

Já, þetta er mjög gaman, sögðu nemendurnir á göngum Áslandsskóla og það sást í andlitum þeirra.

 

 

 

 

 

 

Ábendingagátt