Kveikjum á kærleikanum með göngu og hjartaljósi

Fréttir

Draumur Hörpu Gústavsdóttur um ljósagöngu með góðum hópi á fjallið sitt Helgafell og hjartaljós á toppi Helgafellsins er að verða að veruleika. Harpa elskar að ganga á Helgafellið og upplifir hreyfinguna, líkt og fleiri til, sem sannkallað vítamín fyrir sálina.

Ljósaganga upp á Helgafell í Hafnarfirði

Draumur Hörpu Gústavsdóttur um ljósagöngu með góðum hópi á fjallið sitt Helgafell og hjartaljós á toppi Helgafellsins er að verða að veruleika. Harpa stundar nám við Háskólann á Bifröst og þegar kom að því að gera lokaverkefni í áfanganum „Skapandi greinar“ þá skoraði kennarinn á nemendur að gera verkefni um eitthvað sem stæði þeim næst. Harpa elskar að ganga á Helgafellið og upplifir hreyfinguna, líkt og fleiri til, sem sannkallað vítamín fyrir sálina. Hugmyndin um ljósagöngu kviknaði fljótt og fyrir kraft Hörpu sjálfrar og tilstuðlan menningarstyrks frá Hafnarfjarðarbæ til framtaksins þá verður draumurinn að veruleika í byrjun desember.

Harpa Gústavsdóttir hvetur öll áhugasöm til að ganga með sér á Helgafellið 6. desember nk.

Tveggja metra hjartaljós á toppi Helgafells

Kveikjum á kærleikanum er ljósaganga sem farin verður miðvikudaginn 6. desember kl. 17:30 upp á Helgafell í Hafnarfirði og mun Harpa sjálf leiða gönguna. Gengið verður saman upp á Helgafellið í einni röð með höfuðljós og þátttakendur hvattir til að upplifa og fanga ljósadýrðina sem mun rólega nálgast hjartað á hæsta toppi. Þegar komið er upp á fjallið er gangan stöðvuð, öll draga djúpt andann, slökkva á höfuðljósunum um stund og búa þannig saman til kolniðamyrkur. Stuttu seinna kveikja svo allir á kærleikanum með því að kveikja á höfuðljósunum. Á toppi fjallsins verður búið að koma fyrir tveggja metra hjarta sem mun lýsa á meðan göngunni stendur og þannig munu þátttakendur einnig ganga til móts við hjartað og kærleikann og hjarta stækka eftir því sem nær dregur. „Með þessu langar mig að kalla fram ákveðin hughrif og fá fólk til að hugsa um kærleikann og samferðafólk sitt. Gönguferðir eru allra meina mót og stundum er maður illa upplagður við upphaf göngu en nær undantekningarlaust kem ég niður af Helgafellinu í mun betra skapi. Það er eitthvað einstakt við þetta fjall. Fjallgöngur gefa mér svo mikið og þaðan spratt hugmyndin. Mig langar að skapa upplifun og tækifæri fyrir alla áhugasama til að koma í fjallgöngu og njóta“ segir Harpa. Þátttakendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri og hafa höfuðljós og göngubrodda meðferðis.

Láttu vita af komu þinni í viðburði á Facebook 

Ábendingagátt