Skarðshlíðar­leikskóli

Leikskólinn hóf starfsemi sína í ágúst árið 2019. Í leikskólanum dvelja samtímis 69 börn á fjórum deildum: Hrauni, Hóli, Lyngi og Laut. Skarðshlíðarleikskóli er hluti af lifandi skólasamfélagi og deilir húsnæði með grunnskóla, tónlistarskóla og íþróttahúsi, sem skapar fjölbreytta möguleika til náms, sköpunar og samvinnu.

Overlay Overlay

Leiðarljós

Virðing

Umhyggja

Gleði

Hugmyndafræði

Hugmyndafræði Skarðshlíðarleikskóla er byggð á Fjölgreindarkenningu Garnders, Uppeldi til ábyrgðar og Lærdómssamfélagi. Auk þess er unnið eftir ýmsum stefnum Hafnarfjarðar eins og Læsisstefnu, Barnvænt sveitarfélag og Vináttuverkefni Barnaheill sem er forvarnarverkefni gegn einelti.

Mikil áhersla er lögð á að börnin læri í gegnum leik og að þau upplifi sig sem sterka einstaklinga. Við trúum því að leikur sé besta námsleiðin fyrir börn og í gegnum hann læri þau meðal annars að taka ákvarðanir, leysa úr vandamálum, samvinnu, eflist í félagsfærni og skapandi hugsun auk þess sem málþroski styrkist. Í öllu starfi leikskólans á barnið að vera í brennideplinum.

Gildi leikskólans, umhyggja, virðing og gleði, eiga að skína í gegn svo börn, foreldrar og starfsfólk líði vel og sé öruggt.

Stjórnendur

Berglind Kristjánsdóttir

Leikskólastjóri

Katrín Hildur Jónasdóttir

Aðstoðarleikskólastjóri - tengiliður farsældar

Helen Long

Sérkennslustjóri - tengiliður farsældar

Ráðhildur Anna Sigurðardóttir

Deildarstjóri á Hrauni

Birna Sigurðardóttir

Deildarstjóri á Hóli

Ingibjörg Ósk Helgadóttir

Deildarstjóri á Lyngi

Rocio Herrreo Hoya

Deildarstjóri á Laut

Farsæld barna

Öll börn eiga rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa þegar á þarf að halda. Það getur verið flókið að fá aðstoð við hæfi og vita hvert eigi að leita eftir henni. Ný farsældarlög eiga að tryggja að börn og foreldrar fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum.

 

 

Þjónusta fyrir börn

Þjónusta fyrir börn er veitt á þremur þjónustustigum. Gott er að hafa í huga að þjónustan er stigskipt en ekki mál barnsins sem slíkt. Þannig geta börn fengið þjónustu á fleiri en einu þjónustustigi. Tengiliðir farsældar á Skarðshlíðarleikskóla eru Katrín Hildur Jónasdóttir og Helen Long.

Foreldrasamvinna

Boðið er upp á formleg foreldraviðtöl tvisvar á skólaári – eitt að hausti og eitt að vori. Foreldrar geta einnig óskað eftir fundi við deildarstjóra eða leikskólastjóra hvenær sem þörf er á.

 

Foreldrafélag

Í foreldrafélagi Skarðshlíðarleikskóla sitja 4 foreldrar. Foreldrafélagið stendur til dæmis fyrir sumarhátíð, jólaleiksýningu og kaupum á gjöfum fyrir börnin á jólaballi eða við útskrift.

Foreldraráð

Í foreldraráði leikskólans sitja a.m.k. þrír foreldrar, og kosið er í ráðið að hausti. Foreldraráðið veitir umsagnir um skólanámskrá, starfsáætlanir og skóladagatal, auk þess að hafa umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfi. Foreldrar leikskólabarna geta leitað til foreldraráðs ef þeir vilja gera athugasemdir við starf, stjórnun eða aðbúnað leikskólans og foreldraráð kemur því í farveg.

Í ráðinu sitja: 

 

Hagnýtar upplýsingar

Leikskólakerfið Vala er mikilvægur hluti af leikskólastarfinu í Hafnarfirði. Þar færðu tilkynningar og fréttir frá leikskólanum um dagskrá, svefn, mat og hvernig dagurinn hefur gengið. Þú getur á einfaldan hátt tilkynnt forföll, sent skilaboð, séð matseðil og leikskóladagatalið. Einnig fara umsóknir um leikskólavist, breytingar og flutningar í gegnum Völu.

Vala er aðgengileg í vafra og í appi á snjalltækjum. Appið er á íslensku, ensku og pólsku. Það þarf rafræn skilríki til að skrá sig inn.

Þegar barn byrjar í leikskóla er mikilvægt að það gerist smám saman svo barnið verði öruggt í nýju umhverfi og njóti sín sem best. Í aðlögun kynnist barnið starfsfólki, hinum börnunum og leikskólanum. Aðlögun er líka tími fyrir foreldra og starfsfólk að kynnast og styrkja samstarf á milli heimilis og skóla.

Fyrsti dagurinn er yfirleitt stuttur, en tíminn lengist smám saman til að gefa barninu svigrúm til að venjast breyttum aðstæðum. Þetta hjálpar einnig til við að draga úr þreytu og spennu. Hversu lengi foreldrar eru með barninu í aðlögun fer eftir leikskóla og þörfum barnsins, en yfirleitt má búast við viðveru fyrstu vikuna.

Gott er að gera ráð fyrir meiri sveigjanleika í vinnu fyrst um sinn ef mögulegt er, því stundum þarf að sækja barnið með stuttum fyrirvara. Aðlögunarferlið getur í heildina tekið allt að 4–6 vikur, en ferlið er alltaf lagað að þörfum hvers barns.

Veikindi á að tilkynna leikskólanum gegnum Völu. Það er góð og gild regla að miða við að barn sé hitalaust heima í einn dag eftir veikindi. Algengt er að börn sem hefja leikskólaskólagöngu fái fjölmargar pestir fyrsta hálfa árið.

Það þarf að láta starfsfólk vita þegar komið er með barn á leikskólann og þegar barn er sótt. Þetta er mikilvægt öryggisatriði. Þegar sótt er um leikskóladvöl er skráð hverjir mega sækja barnið. Ef þarf að breyta því er hægt að tala við deildarstjóra.

Börnin fara vanalega alltaf út á hverjum degi. Þegar barn byrjar í leikskóla er gott að ræða við starfsfólk um hvað sé nauðsynlegt að taka með í skólann, til dæmis aukaföt, útiföt og skó sem henta íslensku veðri, sólaráburð, bleyjur, blautþurrkur og fleira.
Blaut og skítug föt eiga að fara með heim í lok dags en þurr föt má geyma í leikskólanum. Á föstudögum á að taka allt sem tilheyrir barninu heim. Mikilvægt er að merkja öll föt vel.

Börn fá morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu í leikskólanum. Börnin þurfa því alla jafna ekki að koma með nesti. Ef barn getur ekki borðað einhvern mat vegna mataróþols, ofnæmis eða af trúarlegum ástæðum er mikilvægt að upplýsa leikskólastarfsfólk um það.

Venjulegir leikskóladagar eru 180 dagar á ári. Aðrir dagar þar sem leikskólinn er opinn en gætu fallið undir frí eru kallaðir skráningardagar. Á þeim dögum þarf að skrá börn sérstaklega í leikskólann, annars er litið á að þau séu í fríi. Leikskólar tilkynna skráningardaga með góðum fyrirvara og biðja um skráningu.
Skoða leikskóladagatalið 2024-2025

  • 2 dagar í október þegar vetrarfrí er í grunnskólum Hafnarfjarðar.
  • Frá og með 21. desember til og með 2. janúar.
  • 2 dagar í febrúar þegar vetrarfrí er í grunnskólum Hafnarfjarðar.
  • 3 dagar í dymbilviku fyrir páska.
  • Frá og með 10. júní til 10. ágúst.
  • Börn taka fjögurra vikna samfellt sumarfrí yfir sumartímann.

Leikskólar í Hafnarfirði eru lokaðir 5 daga á ári vegna skipulagsdaga, auk þess eru 4 skertir skóladagar yfir árið vegna skipulags skólastarfs. Leikskólarnir eru alltaf lokaðir á rauðum dögum. Þú getur séð dagatal leikskólans í Völu.

Leikskólar í Hafnarfirði eru lokaðir í 3 vikur í júlí en börn taka að lágmarki fjögurra vikna samfellt sumarleyfi. Það er ekki rukkað fyrir leikskólagjöld í sumarfríi eða þegar það er lokað.

Breytilegur dvalartími á milli daga skapar svigrúm fyrir fjölskyldur til að sníða leikskóladvöl barna að sínum þörfum. Fjölskyldur greiða bara fyrir þann tíma sem er nýttur og þannig er möguleiki á að lækka leikskólagjöldin. Lágmarksdvöl er 4 stundir á dag sem gerir að lágmarki 20 tíma dvöl á viku. Hámark er 42,5 stundir á viku (8,5 stundir á dag).

Skráning í sveigjanlega dvöl er í upphafi hverrar annar, eða í síðasta lagi:

  • 15. ágúst fyrir haustönn
  • 15. desember fyrir vorönn

Í leikskólanum er skipulögð dagskrá. Það er gott fyrir börnin að hafa ákveðna rútínu og vita hvað gerist næst, það er grundvöllur að öryggistilfinningu. Með þekktri dagskrá vita börnin að hverju þau ganga á hverjum degi og skipulagið kemur í veg fyrir óþarfa biðtíma og árekstra í samskiptum. Á haustin fá foreldrar skóladagatal fyrir veturinn þar sem fyrirkomulag hvers mánaðar er kynnt í grófum dráttum.

Leikskóladeginum skipt upp í tvennt

  • Markvisst fagstarf er frá kl. 9–15 alla virka daga.
  • Frjáls tími og leikstundir eru frá 7:30–9 og eftir kl. 15 á daginn.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendir út tilkynningar um veður þegar á þarf að halda, í samráði við lögreglu og fræðsluyfirvöld.
Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar fylgist vel með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum tilmælum frá yfirvöldum sem gætu haft áhrif á skólastarf barna og bregðist við í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Leiðbeiningar fyrir foreldra

Ábendingagátt