Metnaðarfull markmið og vilji til að taka umhverfismál föstum tökum

Fréttir

Umhverfis- og auðlindastefna Hafnarfjarðarbæjar var samþykkt í bæjarstjórn 25.apríl sl. Síðan þá hefur umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar unnið að greiningu á þeim verkefnum sem eru í aðgerðaáætlun stefnunnar.  Með stefnunni leitast Hafnarfjarðarbær við að taka umhverfismálin föstum tökum auk þess að hvetja íbúa til að gera slíkt hið sama.

Umhverfis- og
auðlindastefna Hafnarfjarðarbæjar var samþykkt í bæjarstjórn 25.apríl sl. Síðan
þá hefur umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar unnið að greiningu
á þeim verkefnum sem eru í aðgerðaáætlun stefnunnar. Umhverfis- og
framkvæmdaráð lagði til á fundi sínum í nóvember að boðað verði til íbúafundar í upphafi á nýju ári þar sem
umhverfis- og auðlindastefna Hafnarfjarðar verði kynnt. Með umhverfis- og auðlindastefnunni leitast Hafnarfjarðarbær
við að taka umhverfismál sveitarfélagsins föstum tökum og við að setja sér
metnaðarfull markmið auk þess að hvetja íbúa til að gera slíkt hið sama.

Sjá umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðar

Stefna sem taka þarf
tillit til í allri starfsemi sveitarfélagsins

Markmið stefnunnar er að tryggja öllum íbúum Hafnarfjarðar
heilnæmt og öruggt umhverfi til lífs, leiks og starfs og skal taka tillit til
hennar í allri starfsemi sveitarfélagsins. Sveitarfélagið stefnir að því að
vera í fararbroddi í sjálfbærni og umhverfismálum, draga úr losun
gróðurhúsalofttegunda og myndunar úrgangs. Áhersla er lögð á sjálfbæra nýtingu
og verndun náttúru, auðlinda og menningarminja. Mengun sé í lágmarki og
umhverfisvöktun sé virk. Almenningssamgöngur verði efldar og hlutur hjólandi og
gangandi bættur. Umhverfisfræðsla verði til fyrirmyndar og aðgengi að
upplýsingum verði handhægt og þær auðnýttar. Einnig verði stefnt að góðu og
jöfnu aðgengi fyrir alla hópa samfélagsins til útiveru og útivistar.

Auðlindir, náttúra og
menningarminjar

Stefnt er að því að Hafnarfjarðarbær verði í fararbroddi
sveitarfélaga á Íslandi við verndun náttúrunnar, auðlinda og menningarminja.
Sveitarfélagið skal hafa það að leiðarljósi að standa vörð um gæði náttúrunnar
og styðja eins og kostur er við fullnægjandi rannsóknir og upplýsingar um
ákvarðanir sem hafa áhrif á hana. Hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun skal höfð
að leiðarljósi við skipulag, framkvæmdir og starfsemi í bæjarlandinu.

Mengunarvarnir og umhverfisvöktun

Kappkostað verður að koma í veg fyrir hvers kyns mengun og
draga úr henni eins og kostur er. Fylgst verður reglubundið með loftgæðum,
mengun sjávar við strendur, í lækjum, vötnum og grunnvatni, svo og gróðri og
jarðvegi. Hljóðmælingar verða gerðar við stórar umferðaræðar og þar sem tilefni
er til. Niðurstöður umhverfisvöktunar verða birtar eins fljótt og auðið er með
aðgengilegum hætti. Bæjarfélagið beitir sér með virkum hætti fyrir því að
fyrirtæki í Hafnarfirði viðhafi virka umhverfisstjórnun og beiti bestu tækni
við mengunarvarnir.

Neysla og úrgangur

Stefna skal að því að draga úr myndun úrgangs og hvatt
verður til aukinnar flokkunar á úrgangi og endurnýtingar. Verulega skal dregið
úr notkun á plasti, s.s. einnota borðbúnaði, plastpokum og einnota plastílátum.
-Innkaup sveitarfélagsins og undirverktaka þess verði umhverfisvæn. Stefnt
verði einnig að því að draga úr matarsóun. Sveitarfélagið einsetur sér að
þjónusta íbúa og fyrirtæki með skilvirkri sorphirðu sem stuðlar að bættri
hráefnisnýtingu.

Samgöngur og skipulag

Í samgöngum er stefnt að því að auka hlut gangandi, hjólandi
og notenda almenningssamgangna og tekið verði mið af því við gerð
aðalskipulags, deiliskipulaga og samgöngumannvirkja. Við skipulag bæjarins
verði áhersla lögð á útivistar- og dvalarsvæði. Gerðar verði í auknum mæli
kröfur um séruppdrætti að lóðum við fjölbýlishús og opinberar byggingar.

Umhverfisfræðsla

Aðgengi bæjarbúa að upplýsingum um umhverfismál, í
nærumhverfi sínu og landi bæjarins, skal vera til fyrirmyndar. Sérstök áhersla
verði á að styðja við leik- og grunnskólastarf með viðeigandi innviðum og
fræðslu fyrir starfsfólk skólanna.

Útivist og
heilbrigður lífsstíll

Tryggja skal gott aðgengi allra bæjarbúa að útivistarsvæðum,
innan bæjarmarkanna sem utan þeirra, og íbúar hvattir til útivistar allt árið.
Þá skal Hafnarfjarðarbær stuðla að uppbyggingu áningarstaða og gönguleiða í
bæjarlandinu og greiða aðgengi að útivistarsvæðum fyrir gangandi, hjólandi og
akandi í samræmi við aðalskipulag og samgöngustefnu bæjarins.

Ábendingagátt