Ný leitarvél, uppfletting á sorplosun og ný reiknivél
Aukin sjálfsafgreiðsla íbúa með snjöllum stafrænum lausnum er skýrt markmið í þjónustu bæjarins. Unnið er að stöðugum umbótum á vef bæjarins. Nokkrar nýjungar hafa litið dagsins ljós á undanförnum mánuðum og margar í bígerð.
Aukin sjálfsafgreiðsla íbúa með snjöllum stafrænum lausnum er skýrt markmið í þjónustu bæjarins. Unnið er að stöðugum umbótum á vef bæjarins. Nokkrar nýjungar hafa litið dagsins ljós á undanförnum mánuðum og margar í bígerð.
Hvenær er næsta losun á sorpi í minni götu?
Þetta er býsna algeng spurning sem við fáum frá íbúum, hvort sem það á við gráu tunnuna eða bláu pappírstunnuna. Hingað til hefur verið hægt að finna þær upplýsingar í fremur óaðgengilegum pdf skjölum.
Það er því ánægjulegt að segja frá því að núna er komin í loftið einföld uppfletting á næstu dagsetningu á losun sorps. . Þú einfaldlega slærð inn götuheiti og númer og þá færðu að vita hvenær þú mátt eiga von á næstu losun.
Reiknivél fyrir leikskólagjöld
Unnið hefur verið að smíði á nokkrum reiknivélum sem gera þjónustu sveitarfélagsins gagnsærri. Ein þeirra er nú þegar komin í loftið en það er reiknivél fyrir leikskólagjöld.
Gjaldskráin fyrir leikskólagjöld er ekki einföld, margs konar afslættir eru í boði og stundum erfitt að átta sig á hver raunverulegur kostnaður foreldra er. Reiknivélin er einföld, tvær forsendur þarf að setja inn þ.e. fjölda barna og lengd dvalar.
Þessar lausnir fyrir sorplosun og reiknivélar eru afrakstur úr einu af nýsköpunarverkefnum sumarsins og voru unnar af nemanda í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, Patreki Inga Sigfússyni, undir leiðsögn Garðars Rafns Eyjólfssonar vefstjóra.
Snjöll leitarvél
Í vor settum við í loftið endurbætta leitarvél á vefnum sem við erum stolt af því hún er hún ansi snjöll!
- Í fyrsta lagi er hún mjög hraðvirk, skilar niðurstöðum á afar skjótan hátt.
- Í öðru lagi geta notendur geta síað niðurstöður eftir nokkrum flokkum og þannig fengið sér niðurstöður fyrir fundargerðir, skjöl, fréttir og starfsfólk. Leit í fundargerðum hefur hingað til aðeins verið aðgengileg í gegnum fundargerðasíðuna á vefnum og sama má segja um leit að starfsfólki sem hefur aðeins verið aðgengileg í sér uppflettingu.
- Í þriðja lagi má nefna að það er mismunandi vægi á efni t.d. raðast síður á vefnum ofar en skjöl, fréttir og fundargerðir.
- Í fjórða lagi þá fyrirgefur leitin þér ef þú slærð inn algenga misritun t.d. varðandi y eða i eða stafavíxl.
- Í fimmta lagi þá er ákveðin ritstýring á niðurstöðum, við vitum að ákveðin leitarorð eru algengari en önnur og við beinum notendum í rétta átt og gerum tillögu að niðurstöðum við innslátt.
- Í sjötta lagi þá skilar leitin niðurstöðum fyrir eintölu- og fleirtölumyndanir orða sem og fallbeygingar. Þú getur skrifað orð í nefnifalli eintölu, dæmi orðið teikning skilar þér strax niðurstöðum fyrir teikningar, teikningin, teikningarnar o.s.frv.
Vefþula bætir aðgengi
Í vetur var bætt við vefþulu en það er talgervill sem breytir texta í tal. Á hverri síðu og frétt á vefnum er hægt að smella á „hlusta“ hnappinn og fá textann lesinn upphátt af vefþulunni.
Vefþulan lýsir upp orð og setningar sem hún les hverju sinni en slíkur stuðningur hentar blindum og sjónskertum sem og lesblindum og þeim sem eru að læra málið. Vefþulan nýtist einnig þeim sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að lesa á skjáinn vegna t.d. birtuskilyrða eða í akstri.
Aðrar nýjungar
Af öðrum verkefnum sem eru í gangi á vef og þjónustuvef bæjarins má nefna heildarendurskoðun á texta vefsins með það að markmiði að einfalda framsetningu efnis og gera það skiljanlegra. Nýr enskur vefur er í burðarliðnum sem er ekki síst sniðinn að þörfum innflytjenda með helstu þjónustuupplýsingum aðgengilegum á ensku.
Heildarrýni er í gangi á Mínum síðum með það að markmiði að einfalda framsetningu, gera skilaboð á vef og umsóknir notendavænni, auka sjálfsafgreiðslu, bæta notendaupplifun og þjónustu við bæjarbúa. Við miðum við að skila inn stöðugum umbótum á þeim vef frekar en að setja í loftið eina allsherjar breytingu. Rafrænum umsóknum hefur fjölgað á kostnað pdf umsókna sem munu vonandi hverfa með öllu á næstu misserum. Rafrænar undirritanir umsókna verða innleiddar sem munu spara mörg sporin og einfalda alla úrvinnslu.
Heildarendurskoðun á hönnunarstaðli bæjarins er í vinnslu sem mun hafa áhrif og samræma útlit og framsetningu á stafrænum lausnum á næstu misserum.
Margt annað mætti nefna en hér verður látið staðar numið og verkin fá frekar að tala eftir því sem þau klárast.