Nýtt skipulag leikskóladagsins tekur gildi haustið 2024

Fréttir

Leikskóladagur barna í Hafnarfirði tekur umtalsverðum breytingum frá og með 1. september 2024 og er endurskipulagningin svar við breyttum forsendum og kröfum foreldra, starfsfólks, atvinnulífsins og síðast en ekki síst þörfum barnanna sjálfra. Starfsemi innan leikskóladagsins verður tvíþætt með fagstarfi og frjálsum tíma, leikskólagjöld lægri í takti við sveigjanlegan dvalartíma, leikskóladagatalið verður 180 dagar og aðrir dagar verða sérstakir skráningardagar.

Spennandi breytingar framundan í leikskólamálum bæjarins

Leikskóladagur barna í Hafnarfirði tekur umtalsverðum breytingum frá og með 1. september 2024 og er endurskipulagningin svar við breyttum forsendum og kröfum foreldra, starfsfólks, atvinnulífsins og síðast en ekki síst þörfum barnanna sjálfra. Starfsemi innan leikskóladagsins verður tvíþætt með fagstarfi og frjálsum tíma, leikskólagjöld lægri í takti við sveigjanlegan dvalartíma, leikskóladagatalið verður 180 dagar og aðrir dagar verða sérstakir skráningardagar. Stytting dvalartíma er talin hafa mikil og jákvæð áhrif á skólastarfið og þá ekki síst á börnin sjálf.

„Við höldum áfram að stíga mikilvæg skref til framtíðar í átt að enn farsælla leikskólastarfi og umhverfi sem talar betur í takti við þarfir nútímans og þar sem fagfólk situr við stýrið,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. „Markmið Hafnarfjarðarbæjar hefur verið mjög skýrt frá upphafi þessarar vegferðar og það er að fjölga fagfólki innan leikskólanna með árangur og vellíðan barna í huga og leikskólastarfinu til heilla. Það höfum við gert með því að styrkja fagmenntun og heilsu starfsfólks, samræma starfsár og starfstíma leikskóla- og grunnskólastigsins, auka sveigjanleikann í starfinu með símenntun og styttingu vinnudagsins og skapa raunveruleg tækifæri til faglegs starfs í síbreytilegu umhverfi. Allt þetta og meira til á rétt rúmu ári og við erum þegar farin að uppskera. Hafnarfjarðarleiðin er langhlaup, ekki spretthlaup og krefst samstarfs og samtals allra,“ segir Rósa.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri með hópi leikskólabarna í Hafnarfirði.

Leikskóladeginum skipt upp – tvíþætt starfsemi innan dagsins

Markvisst fagstarf og skipulögð kennsla fer fram frá kl. 9-15 á daginn. Þess utan er frjáls tími og leikstundir frá kl. 7:30-9 á morgnana og eftir kl. 15 á daginn.

Leikskóladagatal – skráningardagar

Breytingar verða gerðar á leikskóladagatali. Leikskóladagar verða að jafnaði 180 dagar á ári og aðrir dagar verða svokallaðir skráningardagar. Á skráningardögum þurfa foreldrar og forsjáraðilar að skrá börn sérstaklega í leikskólann, að öðrum kosti er litið svo á að þau séu í fríi. Börn taka áfram fjögurra vikna samfellt sumarfrí.

Lækkun leikskólagjalda og sveigjanlegur dvalartími

Gjöld fyrir 30 stunda dvöl og skemur á viku lækka umtalsvert eða um allt að 30%. Gjöld fyrir 40 klukkustunda dvöl á viku verða óbreytt. Boðið verður upp á breytilegan dvalartíma milli daga og er eina skilyrðið að lágmarksdvöl séu 4 stundir á dag alla virka daga. Hægt verður að haga skráningum þannig að dvölin sé mismunandi eftir dögum.

Allar aðgerðir Hafnarfjarðarbæjar síðustu árin og markvissar aðgerðir frá upphafi árs 2023 hafa haft það að markmiði að ýta undir áhuga faglærðra og heilla þá í fjölbreytt og lifandi störf á leikskólum Hafnarfjarðar.

Nánar um breytingar á leikskóladeginum í Hafnarfirði 

Aðgerðir Hafnarfjarðarbæjar í leikskólamálum – eldri tilkynning 

Hafnarfjarðarleiðin – ítarlegar upplýsingar um starfsumhverfi leikskólastarfsfólks 

Ábendingagátt