Ríkið styrkir áframhaldandi uppbyggingu Seltúns

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hlaut 13,6 milljón króna styrk til áframhaldandi uppbyggingar Seltúns þegar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, úthlutaði úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2024.

Seltjörn — þar sem fegurðin er óviðjafnanleg! 

Hafnarfjarðarbær hlaut 13,6 milljón króna styrk til áframhaldandi uppbyggingar Seltúns þegar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, úthlutaði úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2024. Að þessu sinni hlutu 29 verkefni styrk úr sjóðnum, samtals að fjárhæð 538,7 milljónir króna. Styrkirnir dreifast um allt land.

Eins og segir á vef Stjórnarráðsins starfar Framkvæmdasjóður ferðamannastaða samkvæmt lögum nr. 75/2011. Markmið sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða. Einnig að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun. Verkefnin sem hljóta styrk í ár snúa að fjölbreyttri uppbyggingu um land allt, meðal annars á sviði öryggismála, náttúruverndar, innviðauppbyggingar. Mörg verkefnanna eru skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis og eru unnar á forsendum heimafólks.

29 styrkir í kringum landið

„Styrkirnir í ár fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Uppbyggingin er í samræmi við nýja ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 sem ég hef lagt fyrir Alþingi og er grundvölluð á heildarsýn fyrir hvern landshluta, meðal annars í gegnum áfangastaðaáætlanir heimamanna. Með þessum stuðningi erum við að stuðla að betri upplifun og aðgengi ferðamanna, auknu öryggi og verndun viðkvæmrar náttúru landsins. Þetta eru lykilatrið í sjálfbærni íslenskrar ferðaþjónustu sem er leiðarljós okkar,“ segir ráðherra á vef Stjórnarráðsins.

Seltjörn hefur fengið styrki í gegnum árin. Árið 2017 var sett bundið slitlag á bílastæði auk þess sem stígar voru lagaðir. Árið 2018 hófst svo vinna við undirbúning að stækkun salerna sem fól meðal annars í sér að vatn var lagt frá borholu að Seltúni en ný salerni voru opnuð 2020. Þá hafa verið gerðir göngupallar og dvalarsvæði við háhitasvæði sem er á svæðinu upp á barðinu. Nú er áframhaldandi uppbygging styrkt.

Ein fegursta náttúruperla landsins

Seltún er í Krýsuvík. Um er að ræða mjög virkt sprengigíga- og borholusvæði. Þar eru gönguleiðir og hafa bæði trjástígar og malarstígar verið endurnýjaðir fyrir fjárhæðina úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða undanfarin ár. Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún heillar marga. Viðhald á stígum og uppbygging gönguleiða á þessum vinsæla ferðamannastað er forgangsatriði Hafnarfjarðarbæjar og hugmyndir eru uppi um frekari uppbyggingu aðstöðu á svæðinu á næstu árum. 

Já, þetta eru góðar fréttir fyrir okkur öll!

Ábendingagátt