Seltún og Leiðarendi fá úthlutun úr framkvæmdasjóði

Fréttir

Ráðherrar umhverfis- og auðlindamála og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarmála tilkynntu í gær um úthlutun til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið. 

Ráðherrar umhverfis- og auðlindamála og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarmála tilkynntu í vikunni um úthlutun til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið. Markmiðið er halda áfram þeirri miklu uppbyggingu innviða sem hafin er til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum, sem og uppbyggingar ferðamannastaða.

Hafnarfjarðarbær hlýtur úthlutun í tvö verkefni sem snúa annars vegar að Leiðarenda og hinsvegar að áframhaldandi uppbyggingu í Seltúni. 

  • Leiðarendi – deiliskipulag. Úthlutað var kr. 3.750.000.- til að vinna deiliskipulag fyrir Leiðarenda til að marka stefnu til framtíðar sem og til að tryggja að ekki verði frekari skemmdir á honum og við hann. Verkefnið varðar náttúruvernd og öryggi.
  • Seltún – áframhaldandi uppbygging. Úthlutað var kr. 12.000.000.-  til að bæta aðstöðu, þ.m.t. til útivistar á öllu svæðinu, þjónustu og gönguleiðir. Salernismál þarf sérstaklega að bæta, en stækkun á salernisaðstöðu hófst á árinu 2018. Fylgja þarf eftir þeirri áætlun sem fram kemur í staðfestu deiliskipulagi. Verkefnið tengist náttúruvernd og öryggi á vinsælum ferðamannastað í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Þetta er í annað sinn sem kynnt er sameiginlega um úthlutun úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Frá því í fyrra hafa innviðir verið byggðir upp á fjölmörgum stöðum um allt land. Gert er ráð fyrir ríflega þriggja milljarða framlagi til þriggja ára verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2019-2021. Þar með bætist rúmur milljarður króna við þá áætlun sem kynnt var í fyrra. Í áætluninni nú er ekki einungis horft til stakra staði í náttúrunni heldur lögð áhersla á heildræna nálgun í gegnum svæðisheildir og skilgreindar leiðir sem liggja á milli staða. 

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir að þessu sinni styrki til 40 verkefna og nemur heildarstyrksupphæðin alls 505 milljónum króna.

Ábendingagátt