Snjóframleiðsla á Víðistaðatúni

óflokkað

Kuldatíð felur sannarlega í sér tækifæri sem áhugasamir nýta óspart. Nýjasta lofsverða framtakið er snjóframleiðsla á Víðistaðatúni þar sem öflugir aðilar í Skíða- og skautafélagi Hafnarfjarðar hafa mundað tvær skíðabyssur og framleitt snjó sem hugsaður er fyrir gönguskíði á túninu.

Komdu á gönguskíði

Kuldatíð felur sannarlega í sér tækifæri sem áhugasamir nýta óspart. Nýjasta lofsverða framtakið er snjóframleiðsla á Víðistaðatúni þar sem öflugir aðilar í Skíða- og skautafélagi Hafnarfjarðar hafa mundað tvær skíðabyssur og framleitt snjó sem hugsaður er fyrir gönguskíði á túninu og jafnvel snjóþoturennsli í brekkunni við Víðistaðakirkju. Það eru þau Arna Friðriksdóttir, Sigurður Ísólfsson og Sveinbjörn Sigurðsson sem eiga heiðurinn að framtakinu en markmið þeirra er einfalt; að búa til snjó sem nota má við æfingar á gönguskíðum.

Heilsubærinn fjárfestir í snjóbyssum

Það viðrar vel til vetraríþrótta þessa dagana, eini gallinn er að snjóinn vantar. Skíða- og skautafélag Hafnarfjarðar hefur því brugðið á það ráð að hefja framleiðslu á snjó á Víðistaðatúni til að koma til móts við m.a. gönguskíðaþyrsta Hafnfirðinga og vini Hafnarfjarðar. Ævintýrið hófst ekki bara í vikunni heldur fékk einn af hópnum, Sveinbjörn, þá hugmynd fyrir nokkru síðan að sniðugt væri að eiga litlar snjóbyssur sem nota mætti til að búa til snjó fyrir gönguskíðaæfingar og jafnvel önnur skemmtileg tilefni. Úr varð að heilsubærinn Hafnarfjörður samþykkti kaup á tveimur snjóbyssum sem eru einfaldar í notkun en tengja þarf við háþrýstidælu og loftpressu. Þannig hefur Hafnarfjarðarbær reynt að styðja við framtakið með þátttöku í kaupum á réttum búnaði.

Vinsæl vetraríþrótt sem sameinar svo margt

Gönguskíði hafa notið sívaxandi vinsælda síðustu ár og er stór hópur íbúa í Hafnarfirði í hópi virkra iðkenda. Hópur sem er á öllum aldri. Um er að ræða tilvalið sport fyrir alla fjölskylduna sem sameinar samveru, útiveru, hreyfingu og heilan helling af súrefni. Það er von Heilsubæjarins Hafnarfjarðar að Hafnfirðingar nýti sér framtakið, taki virkan þátt í eflingu þessa og umfram allt skemmti sér.

Takk Skíða- og skautafélag Hafnarfjarðar!

Þessi skemmtilega mynd var fengin á Facebooksíðu Skíða- og skautafélags Hafnarfjarðar 

Ábendingagátt