Snyrtileikinn 2025 – Sól, Barbara og gullfallegir garðar

óflokkað

Fyrirtæki og einstaklingar fengu í gær viðurkenningar fyrir snyrtimennsku við eignir sínar. Snyrtileikinn 2025 fór fram í Hellisgerði að vanda.

Já, þau gera bæinn okkar enn betri

Fulltrúar fyrirtækja og einkaheimila fögnuðu saman þegar uppskeru Snyrtileikans 2025 var hampað í gær, fimmtudag, í Hellisgerði.

Sól Restaurant, Fléttuvellir 15, Furuvellir 20, Heiðvangur 5, Áshamar 12-26 og 50, Borgarhella 1, 3 og 5 og kaffibarinn Barbara fengu öll viðurkenningu. Stundin var frábær og hlý þótt nokkuð haustlegt hafi verið um að litast. Fólk varðist kuldanum undir skyggni sviðsins í þessum frábæra listigarði okkar Hafnfirðinga.

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs, afhenti viðurkenningarnar. Hún sagði við athöfnina Snyrtileikann vettvang þar sem kraftur íbúa, fyrirtækja og félaga skini í gegn.

„Það er ánægjulegt að sjá hversu margar tilnefningar bárust í ár og hversu fjölbreytt framlagið er; fallegir garðar og götumyndir, vönduð nýbygging, snyrtilegar atvinnulóðir og frumkvöðlastarf sem dregur græn gildi inn í daglegt líf,“ sagði hún áður en hún afhenti hverjum og einum viðurkenningarskjalið. Fegurðin byggi víða í Hafnarfirði.

„Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra — og líkt og við segjum gjarnan: Margt smátt gerir eitt stórt.“

Já, hvert handtak gerir bæinn betri! Til hamingju öll.

  • Fléttuvellir 15 — einstaklega snyrtilegur heimagarður. Á Fléttuvöllum 15 er að finna fyrirmyndargarð þar sem ræktun, hvíld og leikur mynda heild. Eigendur, Kristín Þórsdóttir og Jóhann Unnar Sigurðsson, hafa skapað snyrtilegt og fjölbreytt rými sem nýtist allt árið um kring.
  • Furuvellir 20 — garður sem gleður vegfarendur. Furuvellir 20 sýnir hvernig samspil gróðurs, timburs og náttúrusteins getur myndað ramma sem gleður bæði heimilisfólk og vegfarendur. Lóðin er fyrirmynd í snyrtileika og aðgengi að fegurð hverfisins.
  • Heiðvangur 5 — fjölbreyttur og vel hirtur gróinn garður. Heiðvangur 5 er dæmi um hvernig fjölbreytt plöntuval og regluleg umhirða skapar varanlegt gildi. Garðurinn er til fyrirmyndar í grónu hverfi og gleður augu allra sem eiga leið hjá.
  • Áshamar 50 — nýbygging með vönduðu umhverfi. Áshamar 50 er vönduð nýbygging með snyrtilegu og notadrjúgu útirými. Þarfaþing verktakar ehf. skilar stað með grænum áherslum og góðu aðgengi fyrir íbúa.
  • Áshamar 12–26 — sex Svansvottaðar fjölbýlishúsalengjur. Áshamar 12–26: sex Svansvottaðar nýbyggingar þar sem sjálfbær hönnun og snyrtilegt umhverfi mynda heild. Eykt ehf. leiðir metnaðarfulla uppbyggingu í hverfinu.
  • Sól Restaurant — gróðurhús og snyrtileg lóð á iðnaðarsvæði. Sól Restaurant í gróðurhúsi við höfnina sameinar snyrtileika, gestgjafamenningu og græn gildi. Lóðin er til fyrirmyndar á iðnaðarsvæði bæjarins.
  • Borgarhella 1, 3 og 5 — vönduð iðnaðarhús og fyrirmyndarlóðir. Borgarhella 1, 3 og 5. Vel heppnuð iðnaðarhús og snyrtilegar lóðir sem styrkja heildarmynd nýs hverfis. KB verk stendur að vönduðum frágangi.
  • Barbara kaffibar — upplyfting húss og umhverfis á Strandgötu 9. Barbara kaffibar, Strandgata 9: rýmum hefur verið lyft að innan sem utan og húsið orðið aðlaðandi kennileiti í miðbænum. Eigendur hafa unnið öflugt starf til fegrunar umhverfisins.

 

Ábendingagátt