Sorgarmiðstöð og Hafnarfjarðarbær tryggja böndin

Fréttir

Sorgarmiðstöð og Hafnarfjarðarbær hafa framlengt samstarfssamning sinn til fjögurra ára. Með honum tryggir miðstöðin sér aðstöðuna í lífsgæðasetri í St. Jó gegn því að bjóða upp á fræðslu á sviði sorgarúrvinnslu fyrir leik- og grunnskóla og stofnanir bæjarins. Þjónustan verður því áfram aðgengileg fyrir íbúa og aðra á besta stað í sveitarfélaginu.

Sorgarmiðstöð með íbúum í liði

Sorgarmiðstöð og Hafnarfjarðarbær hafa framlengt samstarfssamning sinn til fjögurra ára — til ársins 2028.  Þjónusta Sorgarmiðstöðvarinnar verður því áfram með aðstöðu í Lífsgæðasetri í St. Jó og býður upp á fræðslu á sviði sorgarúrvinnslu fyrir grunnskóla og stofnanir bæjarins sem og aðra.

Sorgarmiðstöð fer afar vel við starfsemi Lífsgæðasetursins St. Jó. enda stuðlar setrið að bættum lífsgæðum. Þar er fylgt þeim anda, hlýju og umhyggju sem húsið hefur alla tíð borið með sér. Þetta er andinn sem St. Jósefssystur sköpuð í húsinu.

„Fólk veit af okkur hér í Lífsgæðasetrinu og við erum reiðubúin þegar það þarf á okkur að halda. Sorgarmiðstöð hefur fest sig í sessi og starfsemin eflst í húsnæðinu með stuðningi Hafnarfjarðarbæjar. Okkur líður einstaklega vel í Lífsgæðasetrinu og  fögnum því að vera hér áfram,“ segir Berglind Arnardóttir, stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvar.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, ritaði undir samninginn fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar. „Við hjá Hafnarfjarðarbæ erum mjög stolt af því að styðja starfsemi Sorgarmiðstöðvar og gefa þannig bæjarbúum áfram tækifæri til að nýta þá mikilvægu þjónustu sem þar er veitt. Það er fólki ákaflega dýrmætt á erfiðasta tíma í lífi sínu, þegar ástvinur fellur frá, að geta leitað til Sorgarmiðstöðvarinnar og þess góða fólks sem þar starfar,“ segir Rósa.

Sorgarmiðstöð í Lífsgæðasetrinu

Sorgarúrvinnsla miðar að bættri lýðheilsu með því að efla og styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi. Markmið Sorgarmiðstöðvar er að hlúa að syrgjendum og aðstandendum þeirra bæði börnum og fullorðnum, veita þeim von, styrk og leiðir í sorgarúrvinnslu.

Fræðsluerindi og stuðningshópastörf eru fastir liðir hjá Sorgarmiðstöð. Fjöldi syrgjenda sækir stuðningshópastarf hjá Sorgarmiðstöð og er sú starfsemi umfangsmest. Hópastörfin eru með mismunandi áherslum og eru margir minni hópar innan hvers þeirra. Sorgarmiðstöð er einnig með ráðgjafaþjónustu þar sem hægt er að óska eftir einstaklings eða hópsamtali.

Mikilvægt hlutverk Lífsgæðasetursins

Hlutverk Lífsgæðasetursins er að halda utan um hóp fagfólks og samtaka sem vinna að því að auka lífsgæði fólks.

Tekið er á móti fólki með hlýhug og fagmennsku að leiðarljósi. Þjónustan er fjölbreytt, boðið er upp á ráðgjöf og samtalsmeðferð, námskeið og fræðslu, stuðning, heilsuvernd og sjúkraþjálfun.  Auk Sorgarmiðstöðinni hafa Alzheimersamtökin, Parkinsonsamtökin, Seiglan og Taktur sjúkraþjálfun aðsetur í húsinu.

Berglind Arnardóttir  stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvar, og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og undirrituðu samstarfssamninginn. Hér með þeim er Ína Ólöf Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri miðstöðvarinnar.

 

Ábendingagátt