Sterkari út í lífið er verkfærakista ætluð foreldrum og fagfólki

Fréttir

Heilsubærinn Hafnarfjörður samþykkti um miðjan september þátttöku í verkefninu „Sterkari út í lífið“ með styrkveitingu upp á 500.000.- kr. “Sterkari út í lífið” er verkfærakista ætluð foreldrum og fagfólki sem hefur það að markmiði að auka aðgengi að faglegu efni sem hægt er að nota hvar sem er og hvenær sem er til að ýta undir og styrkja sjálfsmynd barna og ungmenna. Verkfærakisturnar eru aðlagaðar út frá aldri og þroska.

Innleiðing í Hafnarfirði hefst með heilsueflandi kvöldstund í hjarta Hafnarfjarðar

Heilsubærinn Hafnarfjörður samþykkti um miðjan september þátttöku í verkefninu „Sterkari út í lífið“ með styrkveitingu upp á 500.000.- kr. “Sterkari út í lífið” er verkfærakista ætluð foreldrum og fagfólki sem hefur það að markmiði að auka aðgengi að faglegu efni sem hægt er að nota hvar sem er og hvenær sem er til að ýta undir og styrkja sjálfsmynd barna og ungmenna. Verkfærakisturnar eru aðlagaðar út frá aldri og þroska. Innleiðing á verkefni í Hafnarfirði hefst með ókeypis og hvetjandi kvöldstund í Bæjarbíó. Þar mun Nicolas Leó Sigurþórsson tvítugur Hafnfirðingur, framhaldsskólanemi, starfsmaður í Músik & mótor og vélsleðaleiðsögumaður meðal annars stíga fram með reynslusögu sína. Nicolas hefur tekist á við ýmsar áskoranir á stuttri ævi og hefur með þrautseigju og seiglu komist í gegnum þær og nýtir í dag reynsluna sjálfum sér og öðrum ungmennum til góða.

Forvarnarverkefni fyrir fjölskylduna og fagfólk

„Sterkari út í lífið“ er forvarnarverkefni sem hefur það að markmiði að veita ókeypis aðgang að efni, sem allt er byggt á traustum og gagnreyndum grunni vísindanna, og á að aðstoða uppalendur og fagfólk við að takast á við þær ólíku og oft á tíðum krefjandi áskoranir sem fylgt geta uppvextinum. Sálfræðistofan Höfðabakka er framkvæmdaraðili verkefnisins í samstarfi við stóran hóp fagfólks og félög eins og Heimili og skóla – landssamtök foreldra. Vettvangurinn er vefurinn www.sterkariutilifid.is og þar má meðal annars finna ýmsa fræðslu og fróðleik um málefni sem allir uppalendur velta fyrir sér á einhverjum tímapunkti:

  • Tilfinningar okkar birtast ekki upp úr þurru
  • Hvaða máli skiptir samkennd?
  • Bekkjarsáttmáli
  • Hugsanaskekkjur og endurmat
  • Innri gagnrýnandinn
  • Áhrifavaldar og ósanngjarn samanburður
  • Á ég að stoppa notkun samfélagsmiðla?
  • Börn og miðlanotkun

Metnaðarfullt smáforrit og verkfærakista um félagsfærni

Í smíðum er metnaðarfullt smáforrit með æfingum til að þjálfa börn og foreldra í slökun og hugleiðslu. Smáforritið hentar börnum og uppalendum til að hægja aðeins á í nokkrar mínútur og ná meiri ró. Þannig má bæði stýra betur líðan í vöku og einnig stuðla að betri svefni. Æfingarnar eru í takti við aldur og er smáforritinu skipt í fimm stig: leikskóli, grunnstig, miðstig, unglingastig og fullorðnir og eru mögulegar leiðir í smáforritinu þrjár: Slökun, núvitund/hugleiðsla og samkenndaræfingar. Bryndís Jóna Jónsdóttir og Anna Dóra Frostadóttir hjá Núvitundarsetrinu sjá um ritstýringu á smáforritinu en á bak við þær liggur mikil reynsla við innleiðingu slíkra æfinga til allra aldurshópa. Einnig er í smíðum ný verkfærakista um félagsfærni. Í þeirri verkfærakistu verða verkefni sem taka til dæmis á fyrirgefningunni, lausn ágreiningsmála, vináttu, hlustun, drama í samskiptum og því að seta sig í spor annarra. Félagsfærni er einn hornsteinn sterkrar sjálfsmyndar og börn og ungmenni þurfa á leiðsögn að halda því hvers kyns árekstrar hafa bein áhrif á sjálfsmynd. Foreldrar upplifa sig oft ráðþrota í samtölum við börn sín og ungmenni.

Ókeypis kvöldstund fyrr alla áhugasama

Hvetjandi kvöldstund um “Sterkari út í lífið” er í boði Heilsubæjarins Hafnarfjarðar, fræðsla til foreldra og allra þeirra sem vinna með börnum og ungmennum auk þess sem gestir fá ýmis verkfæri sem eru til þess fallin að efla og styrkja. Kvöldstundin fer fram í Bæjarbíó þriðjudaginn 25. október frá kl. 20-22. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin! Þetta verkefni Heilsubæjarins Hafnarfjarðar er liður í heilsueflingu Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar og talar í takt við þá heilsustefnu sem sveitarfélagið mótaði 2016. Eitt af þremur yfirmarkmiðum heilsustefnu er að efla vellíðan íbúa.

Viðburður á Facebook
Dagskrá kvöldstundar

Ábendingagátt