Mannauðsstefna

Markmið Hafnarfjarðarbæjar er að vera áhugaverður og góður vinnustaður sem dregur að og heldur í hæft starfsfólk. Starfsumhverfið á að gefa starfsfólki tækifæri til þróunar og að efla þekkingu sína svo fólk njóti sín í starfi.

Ráðningar

Faglegum aðferðum er beitt við ráðningar til að tryggja að ráðið sé hæft, sveigjanlegt og jákvætt fólk.

Öll störf eru auglýst nema þegar um afleysingastörf, tímavinnustörf, tímabundnar ráðningar eða tilfærslu í starfi er að ræða. Öllum umsóknum um auglýst störf er svarað eftir að ráðningarferli lýkur.

Stjórnun

Stjórnendur eiga að tileinka sér vandaða og nútímalega stjórnunarhætti og sýna gott fordæmi. Stjórnendafræðsla er í boði fyrir alla stjórnendur og stjórnendahandbók er aðgengileg á Læknum, innri vef bæjarins.

Hlutverk stjórnenda er að:

  • vinna starfsáætlanir í samráði við starfsfólk og dreifa ábyrgð.
  • passa að upplýsingaflæði til starfsfólks sé gott.
  • byggja upp jákvætt starfsumhverfi sem eflir liðsheildina.
  • gefa starfsfólki reglulega endurgjöf á störf sín, meðal annars í gegnum árleg starfsmannasamtöl og frammistöðumat.

Starfsumhverfi

Áherslur Hafnarfjarðarbæjar

  • Jákvætt starfsumhverfi þar sem vellíðan starfsfólks er í fyrirrúmi.
  • Starfsfólk upplifir sig sem hluta af liðsheild.
  • Stjórnendur og starfsfólk virði fjölbreytileika og kemur fram við hvert annað af virðingu.
  • Vinnuaðstaða og búnaður gerir starfsfólki kleift að sinna starfinu á sem bestan hátt.
  • Starfsfólk finnur að störf þess séu metin að verðleikum og að það hafi tækifæri til að hámarka árangur sinn í starfi.
  • Fordómar, einelti, ofbeldi eða kynbundin og kynferðisleg áreitni eru ekki liðin.
  • Starfsfólk getur samræmt atvinnu- og fjölskyldulíf með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða tilfærslu í starfi.
  • Vinnustaðir eru reyklausir og ekki er leyfilegt að vera undir áhrifum vímuefna á vinnutíma.

Upplýsingaflæði og samskipti

Starfsfólk á að hafa greiðan aðgang að upplýsingum sem tengjast daglegum störfum þess. Reglulegir starfsmannafundir eru haldnir til að tryggja gott upplýsingaflæði.

Ytri og innri vefir bæjarins gegna mikilvægu hlutverki í miðlun upplýsinga. Lækurinn, innri vefur bæjarins, veitir upplýsingar sem bæði stjórnendur og starfsfólk nýtir sér og tekur þátt í að halda lifandi.

Hvatt er til samvinnu milli deilda og vinnustaða og að starfsfólk deili reynslu sín á milli. Uppbyggileg og lausnamiðuð samskipti eru í fyrirrúmi.

Viðvera og fjarvistir

  • Áhersla er lögð á stundvísi og að viðvera starfsfólks sé samkvæmt ráðningarsamningi og viðverustefnu bæjarins.
  • Það er á ábyrgð stjórnenda að fylgjast með mætingu starfsfólks og grípa inn í ef ástæða er til.
  • Opinská umræða á vinnustöðum um fjarveru vegna veikinda er jákvæð og getur dregið úr fjarveru.

Starfsþróun og símenntun

Starfsumhverfið tekur sífelldum breytingum þannig að starfsfólk þarf að geta aukið þekkingu sína og faglega hæfni. Starfsfólk Hafnarfjarðar er hvatt til að sækja sér endurmenntun innan og utan stofnunarinnar.

Starfsfólk þarf að vera tilbúið til að aðlagast breyttum aðstæðum. Í árlegum starfsmannasamtölum eru greindar þarfir í starfsþróun og gerð símenntunaráætlun.

Starfsfólk þarf að eiga möguleika á framgangi í starfi innan bæjarins, til dæmis með því að flytjast á milli starfa.

Jafnrétti og jafnræði

Jafnréttisstefna bæjarins er samþætt allri starfsemi vinnustaða. Huga þarf sérstaklega að aðlögun starfsfólks af erlendum uppruna og bjóða þeim upp á starfstengt íslenskunám eftir þörfum.

Unnið er markvisst gegn allri mismunun á vinnustöðum bæjarins með því að tryggja framboð starfa, vinnufyrirkomulag, vinnutíma og starfsaðstöðu sem hentar fólki með mismunandi starfsgetu.

Launastefna

Launaákvarðanir eru byggðar á kjarasamningum og viðmiðunarreglum um aukagreiðslur og hlunnindi.

Allar launaákvarðanir skulu:

  • gæta jafnréttis
  • vera gegnsæjar
  • vera málefnalegar
  • vera skjalfestar og rekjanlegar

Starfsfólk á að fá jöfn laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf samkvæmt skilyrðum jafnréttislaga. Stuðst er við starfsmatskerfi sem metur á kerfisbundinn hátt störf bæjarins með tilliti til ábyrgðar, álags og sérhæfni. Komi í ljós launamunur í launagreiningu sem ekki er hægt að rökstyðja á málefnalegan hátt skal gera umbætur.

Starfslok

Faglega er staðið að starfslokum, hvernig sem þau ber að. Í starfslokasamtölum er farið yfir verksvið og greint ástæður þess að fólk hættir.

Starfsfólk getur fært sig í minna krefjandi störf og minnkað starfshlutfall þegar starfslok vegna aldurs færast nær. Einnig er hægt að sækja námskeið til að undirbúa þessi tímamót.