Stóra upplestrarkeppnin 2023

Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði var haldin í Víðistaðakirkju í gær. Á hátíðinni var ríkulegri uppskeru fagnað í gær með vönduðum og fallegum upplestri og fágaðri framkomu átján nemenda úr 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar.

Vandaður flutningur og upplestur átján nemenda

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði var haldin í Víðistaðakirkju í gær að viðstöddum fulltrúum frá grunnskólum Hafnarfjarðar, aðstandendum og boðsgestum. Undirbúningur hátíðarinnar hefur staðið yfir frá Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember síðastliðinn og var stífum æfingum og ríkulegri uppskeru fagnað í gær með vönduðum og fallegum upplestri og fágaðri framkomu átján nemenda úr 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar. Allir grunnskólar Hafnarfjarðarbæjar senda fulltrúa til keppninnar og koma tveir frá hverjum skóla.

Ræktun á íslenskri tungu með þjálfun og vönduðum upplestri

Í ár stigu átján nemendur frá níu skólum í pontu og fluttu brot úr skáldverkinu Blokkin á heimsenda og ljóð eftir skáld keppninnar sem að þessu sinni eru þau Arndís Þórarinsdóttir, Hulda Sigrún Bjarnadóttir og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Allir nemendur fengu viðurkenningu og gjafir fyrir flutning sinn og frammistöðu og hvatningu og hamingjuóskir frá Forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni, Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra og Aðalsteini Ásbergi Sigurðssyni ljóðskáldi keppninnar sem öll heiðruðu hópinn með nærveru sinni. Dómnefnd valdi að lokum þrjá nemendur úr frábærum hópi fulltrúa sinna skóla og veitti þeim sérstaka viðurkenningu. Það voru þau Karen Hrönn Guðjónsdóttir frá Áslandsskóla (1. sæti), Soffía Karen Björnsdóttir frá Hraunvallaskóla (2. sæti) og Reynir Örn Sigrúnarson frá Setbergsskóla (3. sæti) sem þóttu fremst meðal jafningja þetta árið. Dómnefndina í ár skipuðu þau Björk Einisdóttir formaður dómnefndar, Almar Blær Sigurjónsson, Hafrún Dóra Júlíusdóttir og Þórður Helgason. Nemendur í 4. bekk og þátttakendur í Litlu upplestrarkeppninni 2023 sigu fram sem talkór sem er eitt af einkennum Litlu upplestrarkeppninnar. Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, standa að Litlu upplestrarkeppninni sem er sprotaverkefni út frá Stóru upplestrarkeppninni ætlað nemendum í 4. bekkjum grunnskólanna og hefur sama undirliggjandi markmið og tilgang en öðruvísi nálgun og sú stóra.

Hér má sjá þá nemendur sem hlutu sérstaka viðurkenningu ásamt skólastjórum.

Viðurkenningar fyrir verðlaunateikningu og smásögur

Á hátíðinni voru viðurkenningar veittar fyrir smásagnasamkeppni og í samkeppni um verðlaunamynd á boðskort lokahátíðarinnar. Aldís María Antonsdóttir nemandi í 6.bekk í Hraunvallaskóla fékk viðurkenningu fyrir verðlaunateikninguna á boðskortið en það eru einmitt nemendur í 6. bekkjum bæjarins sem fá tækifæri til þátttöku í samkeppninni. Í smásagnasamkeppni 8. – 10. bekkjar voru það nemendur í Víðistaðaskóla sem röðuðu sér í efstu þrjú sætin, þær Amra Bajramovska í 9.bekk sem bar sigur úr býtum, Helena Björg S. Arnarsdóttir í 8.bekk sem hlaut annað sætið og Sunna Björk Magnúsdóttir í 8.bekk það þriðja.

Hófst sem tilraunaverkefni fyrir 27 árum

Stóra upplestrarkeppnin, sem hófst sem tilraunaverkefni um upplestur í Hafnarfirði veturinn 1996-1997, hefur stækkað og eflst svo um munar með árunum og hefur um árabil einnig verið haldin á landsvísu. Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, héldu utan um keppnina til 25 ára en síðustu tvö árin hafa sveitarfélögin og skólasamfélagið á hverjum stað staðið að keppninni. Í Hafnarfirði nýtur skólasamfélagið enn góðs af faglegri aðstoð Ingibjargar Einarsdóttur, upphafsaðila Stóru upplestrarkeppninnar á Íslandi, sem á enn veg og vanda að lokahátíðinni í Víðistaðakirkju.

Fulltrúar grunnskóla Hafnarfjarðar 2023:

  1. Agnes Sigríður Magnúsdóttir frá Áslandsskóla
  2. Reynir Örn Sigrúnarson frá Setbergsskóla
  3. Karítas Ýr Ingimundardóttir frá Engidalsskóla
  4. Hrefna Dís Valgeirsdóttir frá Skarðshlíðarskóla
  5. Sólveig Eva Hannes dóttir frá Lækjarskóla
  6. Arney Sif Zomers frá Víðistaðaskóla
  7. Theodór Elvis Ólafsson frá Hraunvallaskóla
  8. Elísa Axelsdóttir frá Hvaleyrarskóla
  9. Fjóla Huld Daðadóttir frá Öldutúnsskóla
  10. Karen Hrönn Guðjónsdóttir frá Áslandsskóla
  11. Guðrún Ragnarsdóttir frá Víðistaðaskóla
  12. Stefanía Vala Rósardóttir frá Engidalsskóla
  13. Berglind Snædísar Sólveigardóttir frá Hvaleyrarskóla
  14. Baldur Freyr Kristinsson frá Skarðshlíðarskóla
  15. Katrín Líf Sigurðardóttir frá Setbergsskóla
  16. Snæfríður Brynja Bendtsen frá Lækjarskóla
  17. Soffía Karen Björnsdóttir frá Hraunvallaskóla
  18. Benedikt Helgi Guðmundsson frá Öldutúnsskóla
Ábendingagátt