Takk fyrir þátttökuna á Hamingjudögum í Hafnarfirði 2023

Fréttir

Hugmyndin að Hamingjudögum í Hafnarfirði kviknaði með tiltölulega stuttum fyrirvara og er óhætt að segja að þátttaka í þeim fjórum viðburðum sem blásið var til hafi verið framar björtustu vonum. Vilji er fyrir því að halda Hamingjudaga á ný að ári og gera þá enn stærri og meiri og þá með virkri þátttöku sem flestra í samfélaginu.

Ganga, samvera, sjóbað og Gong

Hugmyndin að Hamingjudögum í Hafnarfirði kviknaði með tiltölulega stuttum fyrirvara og er óhætt að segja að þátttaka í þeim fjórum viðburðum sem blásið var til hafi verið framar björtustu vonum. Hafnarfjarðarbær fékk til liðs við sig nokkra einstaklinga, sem flestir eru búsettir í Hafnarfirði og eiga það sameiginlegt að hafa bæði þegar lagt sitt að mörkum við heilsueflingu ólíka hópa innan sveitarfélagsins í störfum sínum og hafa einlægan áhuga á heilsueflingu og vellíðan almennt. Með stuttum fyrirvara voru settir upp áhugaverðir og innihaldsríkir viðburðir og lék haustveðrið bæði við skipuleggjendur og þátttakendur. Vilji er fyrir því að halda Hamingjudaga á ný að hausti að ári og gera þá enn stærri og meiri og þá með virkri þátttöku sem flestra í samfélaginu.

Jákvæðni og orka réð för á Hamingjudögunum

Ákveðið var að leggja upp með fjölbreytta dagskrá á þessum fyrstu Hamingjudögum í Hafnarfirði og láta fræðslu, hvatningu, jákvæðni, orku, upplifun og umfram allt hamingju ráða þar för. Hamingjudagarnir voru haldnir meðal annars haldnir í tilefni af Íþróttaviku Evrópu 2023 og einnig, eins og áður hefur komið fram, út frá ákveðnum vísbendingum um að hamingjustuðull landsmanna fari dvínandi. Heilsusamlegur lífsstíll og jákvætt viðhorf stuðlar að betri andlegri og líkamlegri líðan og eykur hamingju. Hamingjudagar í Hafnarfirði voru framlag heilsubæjarins Hafnarfjarðar til að ýta undir hamingju og vellíðan landsmanna eða að minnsta kosti þeirra sem lifa, starfa og njóta í Hafnarfirði.

Ert þú með hugmynd fyrir Hamingjudagana 2024?

Við tökum ekki bara fagnandi á móti öllum ábendingum í gegnum ábendingagáttina okkar heldur líka á móti öllum hugmyndum um verkefni og mögulegt samstarf á fjölbreyttu sviði. Við hvetjum öll áhugasöm til að deila áhugaverðum hugmyndum varðandi Hamingjudagana 2024 á netfangið: hafnarfjordur@hafnarfjordur.is. Mögulega verður hún að veruleika í einhverju formi á Hamingjudögum haustið 2024.

Upplýsingar um hvern og einn viðburð 2023

Myndir frá Hamingjudögum í Hafnarfirði 2023 má sjá á Facebooksíðu bæjarins

Ábendingagátt