Þessi unnu Söngkeppni Hafnarfjarðar 2023 

Fréttir

Söngkeppni félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar var haldin í Bæjarbíói um miðja síðustu viku. Söngfuglarnir tveir sem keppa fyrir hönd Hafnarfjarðar í Söngkeppni Samfés 2023 eru þær Ellý Hákonardóttir frá Ásnum í Áslandsskóla og Sunna Björk Magnúsdóttir frá Hrauninu í Víðistaðaskóla.  

Hæfileikaríkur hópur hafnfirskra ungmenna lætur ljós sitt skína

Söngkeppni félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar var haldin í Bæjarbíói um miðja síðustu viku. Á svið steig einstaklega hæfileikaríkur hópur hafnfirskra ungmenna og óhætt að segja að keppnin hafi verið spennandi og hörð. Dómnefnd, sem fékk það mikilvæga hlutverk að velja sigurvegarana, skipuðu þau Siggi Gunnars tónlistarstjóri Rásar 2, Kjalar Marteinsson Kollmar söngvari og lagahöfundur og Silja Rós Ragnarsdóttir söngkona og lagahöfundur. Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa komið að Söngkeppni sjónvarpsins fyrr í mánuðinum þar sem Siggi Gunnars var kynnir og Kjalar og Silja sungu lagið ,,Styð þína braut”. Söngfuglarnir tveir sem keppa fyrir hönd Hafnarfjarðar í Söngkeppni Samfés 2023 eru þær Ellý Hákonardóttir frá félagsmiðstöðinni Ásnum í Áslandsskóla og Sunna Björk Magnúsdóttir frá félagsmiðstöðinni Hrauninu í Víðistaðaskóla.  

Sigurvegarar í Söngkeppni Hafnarfjarðar 2023

Sigurvegarar í Söngkeppni Hafnarfjarðar 2023

Félagsmiðstöðvar Hafnarfjarðar hafa haldið Söngkeppni Hafnarfjarðar í fjölda ára. Þar gefst unglingum kostur á að koma fram og syngja fyrir framan jafnaldra sína og bæjarbúa. Sigurvegarar Söngkeppni Hafnarfjarðar vinna sér inn sæti í Söngkeppni Samfés sem haldin er í lok apríl ár hvert. Margt af okkar flottasta tónlistarfólki hefur stigið fyrst á stokk í þeirri keppni.  

  • 1.sæti. Sunna Björk Magnúsdóttir. Félagsmiðstöðin Hraunið. Blue Butterfly (frumsamið) 
  • 1.sæti. Ellý Hákonardóttir. Félagsmiðstöðin Ásinn. Strange með Celeste. 
  • 2.sæti. Hrafnhildur Björk Ragnarsdóttir. Félagsmiðstöðin Hraunið. Hopelessly Devoted to you úr Grease eftir John Farrar. 
  • 3.sæti. Marta Manuela Estevez. Félagsmiðstöðin Aldan. Summertime Sandess eftir Lana Del Rey. 

 Allir þátttakendur í Söngkeppni Hafnarfjarðar 2023: Marta Manuela Estevez (Aldan), Elísabet Ósk L. Ólafíudóttir (Verið), Áslaug Sara Lárusdóttir (Mosinn), Steiney Lilja Einarsdóttir (Aldan),  Ellý Hákonardóttir (Ásinn), Sunna Björk Magnúsdóttir (Hraunið), Áróra Sif Rúnarsdóttir (Núið), Ísabella Berg Brynjarsdóttir (Mosinn), Hrafnhildur Björk Ragnarsdóttir (Hraunið) og hljómsveitin Enter name (Vitinn) 

Kynnar voru þau Ísak Gunnarsson frá Ásnum og Ellen María Arnarsdóttir frá Verinu. 

Ábendingagátt