Veistu hvað verður um heimilissorpið þitt?

Fréttir

Með auknum fólksfjölda og aukinni neyslu er mikilvægt að huga að flokkun úrgangs svo hægt sé að endurnýta eða endurvinna í stað þess að urða. Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem vörur, hlutir og efni halda verðmæti sínu og notagildi eins lengi og mögulegt er. Markmiðið er að lágmarka úrgangsmyndun og mengun, draga úr auðlindanotkun með því að koma vörum og hráefnum í hringrás og þannig auka líftíma auðlinda jarðar.

Markmiðið er að lágmarka úrgangsmyndun og mengun, draga úr auðlindanotkun og auka líftíma auðlinda jarðar

Með auknum fólksfjölda og aukinni neyslu er mikilvægt að huga að flokkun úrgangs svo hægt sé að endurnýta eða endurvinna í stað þess að urða. Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem vörur, hlutir og efni halda verðmæti sínu og notagildi eins lengi og mögulegt er. Markmiðið er að lágmarka úrgangsmyndun og mengun, draga úr auðlindanotkun með því að koma vörum og hráefnum í hringrás og þannig auka líftíma auðlinda jarðar. Heimilisúrgangur er sá úrgangur sem fellur til á heimili við venjulegan heimilisrekstur og er sérstaklega safnað og skilað í sorpílát, grenndargáma eða endurvinnslustöðvar. Húsnæðiseigendur greiða sorphirðugjald sem safnast með fasteignagjöldunum fyrir að láta sækja heimilissorpið þeirra að heimilinu auk reksturs grenndarstöðva. En veistu hvað verður um heimilissorpið þitt?

Hvað verður um heimilissorpið þitt?

Terra, sem er hafnfirskt fyrirtæki og sorphirðuþjónustufyrirtæki Hafnarfjarðarbæjar, losar sorpílát með heimilissorpi bæjarbúa á tvískiptum sorphirðubílum sem keyrðir eru áfram af metani. Tveir sorpflokkar eru losaðir hverju sinni, matarleifar og blandaður úrgangur á 2ja vikna fresti og plastumbúðir og pappír og pappi á 4ra vikna fresti samkvæmt sorphirðudagatali. Þaðan er heimilissorpið flutt í starfsstöðvar Sorpu í Gufunesi og Álfsnesi. Sorpa er í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en hlutverk þeirra er meðhöndlun úrgangs í samræmi við lögbundna skyldu sveitarfélaganna. Á starfsstöð Sorpu í Álfsnesi er hver sorpflokkur losaður á viðeigandi móttöku- og flokkunarstöð.

Sorpflokkar

Matarleifar fara í GAJU, gas- og jarðgerðarstöð, og eru endurnýttar í moltugerð og metanframleiðslu. Næringin úr moltunnni fer aftur inn í hringrásina og metanið keyrir til dæmis áfram sorphirðubíla Terra. Blandaður úrgangur er hakkaður og málmar vélrænt flokkaðir úr, síðan baggað og urðað á urðunarstaðnum í Álfsnesi. Hafin er vinna að því að senda brennanlegan úrgang til Stena Recycling AB í Svíþjóð, sem er endurvinnsluaðili Sorpu, til endurnýtingar. Með því verður íslenskur úrgangur nýttur til orkuframleiðslu í Svíþjóð í stað þess að hann sé urðaður á Íslandi. Plastumbúðir eru pressaðar í bagga til að draga úr rúmmáli og síðan flutt til Stena Recycling. Þar er plastið flokkað eftir tegundum og endurunnið sem hægt er, en plast sem hentar ekki í endurvinnslu fer til orkuvinnslu. Pappír og pappi er pressaður og fluttur til Stena Recycling. Þar eru drykkjarfernur flokkaðar frá pappírsstraumnum til að auðvelda endurvinnsluferlið, en fernurnar rýra endurvinnslumöguleika annars pappírs. Bylgjupappi, pappir, dagblöð og karton er endurunnið í nýjar umbúðir, til dæmis stílabækur og salernispappír. Fernurnar fara í sértæka endurvinnslu.

Grenndar- og endurvinnslustöðvar

Sorpa starfrækir sex grenndarstöðvar í Hafnarfirði. Á öllum stöðum eru gámar fyrir pappír, plast og gler, auk fatagáma frá RKÍ og flöskugáma frá Skátunum á einhverjum þeirra. Stór málmgámur er staðsettur við grenndarstöðina við Fjörð.

  • Málmar eru fluttir til brotamálmsfyrirtækja sem flokka það eftir málmtegundum og minnka rúmmál t.d. með pressun. Málmar eru fluttir erlendis til bræðslu og endurvinnslu.
  • Gler er malað og notað sem fyllingarefni við framkvæmdir. Tilraunaverkefni er í gangi þar sem glerumbúðir eru sendar erlendis til endurvinnslu.
  • Textíll sem safnast nýtist til hjálparstarfs á vegum Rauða kross Íslands þar sem sjálfboðaliðar flokka efnið til endursölu, endurvinnslu eða endurúthlutunar þar sem þau eru gefin til þeirra sem á þurfa að halda, bæði hérlendis og erlendis. Allur ágóði af sölu á notuðum fatnaði rennur í hjálparsjóð sem nýtist til alþjóðlegs hjálparstarfs. Slitið klæði er sent erlendis og endurunnið úr því framleiddar til dæmis tuskur og teppi.
  • Skilagjaldsskyldar umbúðir eru pressaðar í bagga og fluttar erlendis til endurvinnslu. Notaðar áldósir eru endurunnar í nýjar áldósir og úr plastflöskum er til dæmis framleidd polyester ull, efni sem nýtist í fataiðnaði og teppaframleiðslu. Íbúar geta styrkt Skátana á grenndarstöðvum eða fengið skilagjald fyrir afhentar umbúðir hjá Endurvinnslunni eða á endurvinnslustöðum. Sorpa starfrækir fjölda endurvinnslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars við Breiðhellu í Hafnarfirði. Garðaúrgangur, spilliefni, stærri málmar, rafmagnstæki, timbur og rúmfrekur úrgangur eins og umfangsmiklar umbúðir eiga að fara á endurvinnslustöðvar og er án gjaldtöku. Úrgangur sem kemur til vegna framkvæmda telst ekki sem heimilissorp og ber gjald hjá Sorpu.
  • Garðaúrgangur er notaður sem yfirlag á urðunarstað SORPU í Álfsnesi.
  • Spilliefni fara til viðurkenndra móttökuaðila spilliefna þar sem þau eru flokkuð og meðhöndluð á réttan hátt og komið til eyðingar eða í endurvinnslu.
  • Raftæki eru tekin í sundur hjá viðurkenndum vinnsluaðilum. Efni hættuleg umhverfinu eru flokkuð frá og meðhöndluð með viðeigandi hætti. Endurvinnsluefni, t.d. málmar, eru flokkuð frá og komið í réttan farveg. Rafhlöður, prentplötur, þéttar o.fl. er fjarlægt úr litlum raftækjum. Að því loknu eru raftækin tætt og málmar og plast úr þeim flokkaðir. Mismunandi efni fara svo til endurvinnslu erlendis.
  • Timbur er kurlað í timburtætara móttöku- og flokkunarstöðvar SORPU í Gufunesi. Það gerir m.a. kleift að endurheimta málmhluti með vélrænni flokkun. Efnið er síðan notað sem kolefnisgjafi í framleiðslu kísilmálms hjá Elkem og sem stoðefni í GAJU.

Ef þú ert í vafa um flokkun á þínum heimilis- og/eða framkvæmdaúrgangi þá er ítarlega leitarvél að finna á vef Sorpu.  Þar er einnig hægt að sjá hvort, hvar og í hvað sorpið fer í endurvinnslu eða endurnýtingu.

Nánari upplýsingar um fjórflokkunina almennt

Sértækar upplýsingar um framkvæmd og fyrirkomulag í Hafnarfirði

Kaupa nýtt ílát 

Sala er hafin á öllum gerðum 240L sorpíláta

Flokkun gengið vonum framar – vel gert íbúar!

Takk fyrir að flokka!

Ábendingagátt