Líður að jólum – og nýir titlar flæða í hillurnar. Bókasafn Hafnarfjarðar hampar vel völdum höfundum og framlagi þeirra til jólabókaflóðsins í hverri viku nóvembermánaðar, á þriðjudögum kl. 17:30.

Í þetta sinn mætir Ófeigur Sigurðsson með nýjustu bók sína, Skrípið, sem segir frá ónefndum Vestur-Íslendingi, tónskáldi og hljóðfæramógúl, og tónleikum þar sem hann endurvekur heimsfrægan bandarísk-rússneskan píanóvirtúósó, Vladimir Horowitz, – en framhaldið af slíkum gjörningi er einstaklega skrautlegt. Skrípið er heillandi og hugmyndarík skáldsaga sem togar kóvid-samfélagið og samtímann sundur og saman í vel súru gríni, skarpri gagnrýni og djúphugsaðri rómantískri sýn á mátt listarinnar gagnvart kaldranalegum og öfgakenndum heimi sem blygðast sín ekki í þeim hamförum sem hann hefur kallað yfir sig.

Ófeigur Sigurðsson hefur löngu sannað sig sem einn áhugaverðasti rithöfundur á Íslandi samtímans og hér birtist hann lesendum sínum í miklu stuði.
Ábendingagátt