Þriðjudaginn 4. febrúar kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á fyrstu hádegistónleika ársins 2025 í Hafnarborg en þá verður Jóhann Smári Sævarsson gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar.

Jóhann Smári Sævarsson stundaði framhaldsnám í söng við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London. Að námi loknu réði Jóhann sig sem einsöngvari við Kölnaróperuna þar sem hann var í þrjú ár. Þá var Jóhann í fjögur ár á samningi við óperuna í Regensburg, auk þess sem hann hefur sungið sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu. Á ferli sínum hefur Jóhann sungið óperuhlutverk í á níunda tug óperuuppfærslna. Meðal verka á tónleikum má svo nefna bæði Requiem eftir Verdi og Mozart, 9. sinfóníu Beethovens og 8. sinfoníu Mahlers.

Jóhann Smári hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem rödd ársins 2010, fyrir túlkun sína á Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar og Vetrarferð Schuberts. Árið 2008 hlaut Jóhann einnig starfslaun listamanna til eins árs og aftur árið 2023 til 6 mánuða. Sem stjórnandi hefur Jóhann stýrt flutningi á óperunum Cunning Little Vixen eftir Janácek og Brúðkaupi Figarós eftir Mozart. Einnig stjórnaði Jóhann flutningi á Requiem eftir Verdi með Hátíðarkór Norðuróps árið 2023 en Jóhann Smári er listrænn stjórnandi óperufélagsins Norðuróps.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.

Ábendingagátt