Heilsubærinn Hafnarfjörður býður til hvetjandi kvöldstundar í Bæjarbíó í hjarta Hafnarfjarðar sem hugsuð er fyrir öll þau sem vilja fræðast um þau tækifæri sem liggja í streitu og hvernig streita getur haft áhrif á seiglu. Einnig hvernig nota má kuldameðferð, öndunartækni og hugarorku til að ná stjórn á sjálfvirkum streituviðbrögðum og læra að vera í lagi, sama hvað.

Aðgangur ókeypis og öll velkomin!

DAGSKRÁ KVÖLDSTUNDAR

Streita, vinur eða óvinur?
Kristín Sigurðardóttir slysa- og bráðalæknir.

Kristín ræðir skilgreininguna á seiglu og streitu. Hvernig viðbrögð við álagi hafa áhrif á líðan og heilsu, hvernig streitan getur hjálpað og hvenær hún fer að verða of mikil. Kynnir ýmis streituráð.  Kristín beitir heildrænni nálgun á heilsu og hefur helgað sig og sitt starf að forvörnum, heilsueflingu og seiglu. Kristín er vinsæll fyrirlesari, kennir við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, m.a. samskiptafræði við Læknadeild, er gestakennari í HR og Opna háskóla HR og er einn stofnandi Hornstrandir Film Festival. Hún rekur fyrirtækið Á heildina litið sem stendur reglulega fyrir námskeiðum og fyrirlestrum fyrir fyrirtæki og stofnanir, þar sem áhersla er lögð á heilsu, vellíðan, hvernig nýta megi streituna í síbreytilegu umhverfi og auka seiglu, sem eru lykilatriði þess að blómstra í leik og starfi.

Hugsaðu um heilsuna. Lærðu að vera í lagi, alveg sama hvað.
Vilhjálmur Andri Einarsson heilsuþjálfi og meðstofnandi ANDRI ICELAND

Í starfi sínu leggur Andri áherslu á aðferðir sem hafa haft svo mikil áhrif á líf hans sjálfs að í kjölfar þess að kynnast þeim skilgreinir hann sjálfan sig sem „endurfæddan“. Vendipunkturinn var þegar hann gat litið á áratugi af langvarandi líkamlegum verkjum og andlegri vanlíðan sem liðna tíð. Þessi umbreyting leiddi til þess að hann fór að miðla ávinningi kuldameðferðar, öndunartækni, og hugarorku meðal annarra sannreyndra Mind-Body aðferða. Hann hefur gert það til þúsunda manna með það að markmiði að leiðbeina öðrum í átt að sömu valdeflandi upplifun. Eftir að hafa notið innblásturs af beinni kennslu frá heimsþekktum höfundum, þjálfurum og kennurum á sviði Mind-Body tækninnar hefur Andri orðið að helsta sérfræðingi í þessum efnum á Íslandi sem fólk, sem sækist eftir einstakri umbreytandi þjálfunarupplifun, snýr sér til. Það er einfaldlega einstök upplifun að dýpka skilning sinn á öndun, ögra gömlum skoðanamynstrum og fara ofan í ískalt vatn. Þetta er einföld leið til þess að enduruppgötva getuna til að ná stjórn á sjálfvirkum streituviðbrögðum og læra að vera í lagi, sama hvað. Þetta er eins og að læra að finna innri kyrrð í auga stormsins.

Stýring kvöldstundar er í höndum Andra Einarssonar.

Þessi hvetjandi kvöldstund og framtak Heilsubæjarins Hafnarfjarðar er liður í heilsueflingu Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar og talar í takt við þá heilsustefnu sem sveitarfélagið mótaði 2016. Eitt af þremur yfirmarkmiðum heilsustefnu er að efla vellíðan íbúa.

Ábendingagátt