Opið verður í Sveinshúsi fyrsta sunnudag í mánuði í sumar frá kl. 13:00 til 17:30. Sveinshús, blátt að lit, blasir við frá súrheysturnunum í Krýsuvík og er afleggjarinn að húsinu merktur með skilti Vegagerðarinnar. Að vanda verður boðið upp á kaffiveitingar og leiðsögn um sýningu og hús.

Ákveðið hefur verið að sýningin KONAN MÍN sem verið hefur uppihangandi síðast liðin tvö ár framlengist í eitt ár til viðbótar en margir hafa lýst yfir áhuga á að sjá hana en misstu af henni s.l. sumar. Þess má geta fyrir þá sem vilja kom aftur að skipt hefur verið út tveimur myndum og fjórum bætt við í staðinn sem varpa frekar ljósi á viðfangsefni sýningarinnar. Þetta er tíunda og viðamesta sýningin sem Sveinssafn hefur sett upp í Sveinshúsi frá upphafi. Tekur upphengingin mið af svonefndum „salon“ sýningum í Frakklandi á 18. og 19. öld en einnig bíblíumyndasögum á veggjum og loftum miðaldakirkjunnar. Sýningin hefur hlotið mikið lof sýningargesta og  því hvetjum við eindregið þá sem ekki hafa séð sýninguna, en hafa taugar til listar Sveins Björnssonar, að koma og „sjá list hans í alveg nýju ljósi“, eins og margir sýningagesta hafa haft á orði, – á meðan enn gefst tækifæri til.

Sýningin KONAN MÍN tekur til myndverka frá fantasíuskeiði listamannsins Sveins Björnssonar (1925-1997) sem hefur að geyma konuandlit, sem ýmist hefur verið kennt við Madonnu, Krýsuvíkurmadonnu, huldu, huldukonu, heilaga konu eða listagyðju. Með öðrum orðum konu listamannsins eins og hún birtist í myndheimi hans og með ákveðnum hætti einnig í raunheimi hans. Líta má svo á að Sveinn Björnsson vinni með myndleiðistef í listheimi sínum á fantasíutímabili hans sem stóð yfir ca 1958 – 1992. Hann setur þessi leiðistef fram með margvíslegum hætti í verkum sínum, stillir þeim saman þannig að ný merking verður til; minnir þannig óneitanlega nokkuð á óperusmíðaaðferð Richard Wagners (Leidmotiv). Ekki leiðum að líkjast þar. Allt þetta og meira til í leiðsögn um sýninguna KONAN MÍN. Verið velkomin.

 

Opnunardagarnir í sumar verða þessir og alltaf opið frá kl. 13:00 til 17:30 með veitingum og leiðsögn um sýningu og hús:

  • Sunnudagur 4. júní
  • Sunnudagur 2. júlí
  • Sunnudagur 6. ágúst
  • Sunnudagur 3. september
Ábendingagátt