Víðistaðaskóli sýnir WEST SIDE STORY

óflokkað

10. bekkur Víðistaðaskóla sýnir stórsöngleikinn Saga úr Vesturbænum, WEST SIDE STORY, eftir Sondheim og Bernstein 14.-16. febrúar. Sýningarnar verða fimm og nú er allt að smella fyrir þá fyrstu.

Leikgleði á sviði í Víðistaðaskóla

10. bekkur Víðistaðaskóla sýnir stórsöngleikinn Saga úr Vesturbænum, WEST SIDE STORY, eftir Sondheim og Bernstein 14.-16. febrúar. Sýningarnar verða fimm.

„Þetta er einn hugrakkasti leikhópur sem ég hef starfað með,“ segir leikstjórinn Níels Thibaud Girerd á Facebook-síðu sinni. Hann leikstýrir nú sýningu 10. bekkjar annað árið í röð, enda unnið kraftaverk með krökkunum.

„Þau eru jafn gömul og unglingarnir í verkinu og þau springa út í ást, sorg, dansi og söng. Þetta er saga unglinga í fortíð, nútíð og framtíð í veruleika sem við oft þorum ekki að horfast í augu við,“ ritar Niels á Facebook. „Þau vinna þetta af heilindum, þroska og hugrekki. Ég tel mig heiðraðan að vinna með þeim.“

Allur 10. bekkur kemur að sýningunni

Sviðsmynd, búningar, förðun, ljós og hljóð er allt í höndum krakkanna og foreldra þeirra. Kristín Högna Garðarsdóttir leiðir listræna teymið, en hún er textílkennari Víðistaðaskóla og hefur séð um búningana í söngleiknum síðustu 7 ár. Dansana samdi Mirjam Yrsa Friðleifsdóttur. Þá sér Jóhanna Ómarsdóttir um tónlist og söng, rétt eins og síðastliðin 7 ár.

Verkefnið er árlegt samstarfsverkefni skólans, félagsmiðstöðvarinnar Hraunsins og foreldra. Allir nemendur í 10. bekk koma á einhvern hátt að verkefninu. Metnaðurinn sem lagður er í þetta verkefni er gríðarlegur. Virkilega gaman er að fylgjast með íþróttahúsinu í Víðistaðaskóla breytast í töfrandi leikhús.

Miðinn kostar 1700 krónur og sýningin er um tvær klukkustundir og korter með hléi. Miðasala er á Tix. 

Sýningar eru:

  • Föstudaginn 14. febrúar klukkan 20:00 ✨
  • Laugardaginn 15. febrúar klukkan 13:00 og 17:00 ✨
  • Sunnudaginn 16. febrúar klukkan 17:00 og 17:00 ✨⭐️

Myndir/Benedikt Oliver Jensson 

Ábendingagátt