Víðistaðaskóli vann spurningakeppni grunnskólanna

Fréttir

Víðistaðaskóli vann spurningakeppni grunnskólanna á höfuðborgarsvæðinu. Úrslitakeppnin var haldin í ráðhúsi Reykjavíkur og tók sigurliðið bikarinn með heim í Hafnarfjörðinn eftir frækinn sigur í gærkvöldi.

Víðistaðaskóli bar sigur úr býtum

„Þetta var mikið fjör og við erum mjög stoltir af þeim,“ segir Kristmundur Guðmundsson annar liðsstjórnanda spurningaliðs Víðistaðaskóla sem  vann spurningakeppni grunnskólanna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Úrslitakeppnin var haldin í ráðhúsi Reykjavíkur. Nína, Úlfar og Styrmir Ási skipuðu vinningsliðið en með þeim í spurningaliði skólans er Ragnar Halldór. Þau tóku bikarinn með heim í Hafnarfjörðinn. Til hamingju öll.

Æfa og keppa í hverri viku

Mikill áhugi er fyrir spurningakeppnum í Víðistaðaskóla og stýra Kristmundur og Birkir Már Viðarsson valnámskeiði þar sem krakkarnir undirbúa sig og keppa í hveri viku. „25 eru skráðir og oft koma fleiri, “ segir Kristmundur.

„Krakkarnir eru duglegir að koma og horfa á keppnir. Þetta er stemning og menning,“ segir hann. Víðistaðaskóli vann einnig Veistu svarið spurningakeppni grunnskólanna í Hafnarfirði.

„Þá hugsaði ég að það væri gaman fyrir þau að mæta fleiri flottum liðum í jafnri keppni og sjá liðið sem vinnur okkur. En þau unnu 25-15 í undanúrslitum og 24-16 í lokaviðureigninni.“

Innilega til hamingju Víðistaðaskóli.

Ábendingagátt