Ævintýraheimur Bókasafns Hvaleyrarskóla

Fréttir

415 nemendur eru í Hvaleyrarskóla í vetur og markmið skólasafns Hvaleyrarskóla er að styðja við og auka lestur, auk þess að skapa ævintýralegt og áhugavert umhverfi þar sem lestur og bækur eru í hávegum höfð. Skólasafnið er í hjarta skólans, þar sem allir eiga erindi hjá daglega. Bæjarblaðið Hafnfirðingur kíkti í heimsókn og ræddi við Steinar Ó. Stephensen, deildarstjóra.

415 nemendur eru í Hvaleyrarskóla í vetur og markmið skólasafns Hvaleyrarskóla er að styðja við og auka lestur, auk þess að skapa ævintýralegt og áhugavert umhverfi þar sem lestur og bækur eru í hávegum höfð. Skólasafnið er í hjarta skólans, þar sem allir eiga erindi hjá daglega. Bæjarblaðið Hafnfirðingur kíkti í heimsókn og ræddi við Steinar Ó. Stephensen, deildarstjóra.

Á framhlið safnsins er hengt upp eitthvað grípandi og áhugavert. Börn, starfsmenn og foreldrar staldra þá við, skoða og skrafa um það sem er í gangi hverju sinni. Það sést vel á útlánatölum safnsins hve duglegir nemendur eru að sækja sér lesefni. Fyrstu tvo tíma hvers skóladags er safnið opið og eru flestir sem nýta þann tíma til að skila og fá bækur að láni. Gjarnan er sagt að allt að hundrað bækur eigi að vera í hverri kennslustofu, og er reynt eftir bestu getu að verða við því. Þar fer líka fram heimanámsaðstoð Rauða krossins einu sinni í viku og bæta þurfti við öðrum sjálfboðaliða vegna ásóknar.

„Sif Heiða Guðmundsdóttir bókasafnsfræðingur á heiðurinn af því hvernig skólasafnið í Hvaleyrarskóla hefur þróast og blómstrað. Í upphafi aðventunnar er skólasafnið skreytt og jólabækurnar settar fram. Það skapar alltaf mikla stemningu. Þá er boðið upp á jólabókakynningar með umsjónarkennurum á skólasafninu. Sif Heiða segir frá bókunum með glærukynningu og svo geta nemendur gluggað í þær og fengið þar til gert blað til að skrifa niður þær bækur sem þeir óska sér. Nýjar bækur fara ekki í lán fyrr en eftir jólafrí, því vonandi fá flestir a.m.k. eina bók í jólagjöf,“ segir Steinar.

Í byrjun desember hefst í skólanum jólakúlulestur, þar sem nemendur skreyta jólakúlu eftir lestrarmarkmið og hengja á jólatré á framhlið skólasafnsins. „Trén verða því fallega skreytt í lok þeirra tveggja vikna. Síðustu vikuna fyrir jólafrí fá allir umsjónarkennarar barna á yngsta stigi innpakkaðar jólabækur til að lesa, í t.d. nestistímanum. Hefur nemendum þótt þetta mjög sparilegt og spennandi.

Á skólasafninu má tala en háreysti er ekki í boði. Safnið er griðastaður þar sem nemendur mæta hlýju, friði og ró í lifandi umhverfi. Þar má oft finna tengingar við það sem er að gerast í heiminum hverja stundina, t.d. eldgos, afmæli rithöfunda, barnabókaverðlaun eða annað. Þegar rithöfundar koma á sal skólans og lesa upp fyrir árgangana er bókum þeirra stillt fram og fróðleikskorn með. Einnig er sjóræningjadagur og vika „bannaðra bóka“. Einn mikilvægasti þáttur í starfsemi safnsins er samstarf bókasafnsfræðinga á söfnum bæjarins. „Það skiptir máli í starfsánægju, sem skilar sér í sterkum skólasöfnum og samvinnuna Bókabrall, árlegan viðburð á skólasöfnum bæjarins, þar sem nemendur vinna saman að lausn bókmenntaverkefna,“ segir Steinar.

Viðtal við Steinar var birt í Hafnfirðingi 20. desember 2019

 

Ábendingagátt