Góð staða á leikskólum bæjarins fyrir veturinn

Fréttir

Öll börn sem fædd eru í maí 2023 og eldri hafa fengið pláss á leikskólum Hafnarfjarðarbæjar í haust. Stöður í leikskólum bæjarins eru nær fullmannaðar. Haustið fer vel af stað með breyttum leikskóladegi.

Sterk staða með nýju skipulagi leikskóladagsins

Góð staða er í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar fyrir veturinn og standa þeir nú svo gott sem fullmannaðir fyrir veturinn. Öll börn fædd í maí 2023 og eldri hafa fengið pláss á leikskólum Hafnarfjarðarbæjar í haust.

Hafnarfjarðarbær hefur innleitt breytingar á leikskóladegi barnanna sem gefa færi á styttri viðveru en um leið sömu umönnun og kennslu. Foreldrar geta lækkað leikskólagjöldin um allt að 30%. Enn sem fyrr geta þó foreldrar fengið pláss fyrir börnin sín fullan leikskóladag þurfi þeir þess – án þess að gjöld hækki frá því sem var.

Breytt skipulag leikskóladagsins

Nýtt skipulag fyrir leikskóladaginn í Hafnarfirði tók gildi frá og með 1. september 2024. Starfsemi innan leikskóladagsins verður nú tvíþætt með fagstarfi og frjálsum tíma. Markvisst fagstarf fer fram frá kl. 9-15 á daginn alla virka daga. Frjáls tími og leikstundir frá 7:30-9 og eftir kl. 15 á daginn.

Leikskóladagatalið verður 180 dagar og aðrir dagar verða sérstakir skráningardagar.

Skráningardagar eru eftirfarandi:  

  • Tveir dagar í október þegar vetrarfrí er í grunnskólum Hafnarfjarðar
  • Frá og með 21. desember til og með 2. janúar
  • Tveir  dagar í febrúar þegar vetrarfrí er í grunnskólum Hafnarfjarðar
  • Þrír dagar í dymbilviku fyrir páska
  • Frá og með 10. júní – 10. ágúst
  • Börn taka fjögurra vikna samfellt í sumarfrí yfir sumartímann

Breytingarnar á leikskóladeginum eru hentugar fjölskyldum og hjálpa sveitarfélaginu að halda öflugu fagfólki í starfi og fá fleiri fagmenntuð til starfa. Með skipulagðri skiptingu á leikskóladeginum er enn líklegra að starfkraftar fagfólks í leikskólum nýtist betur með börnum. Ljóst er að þessar breytingar hafa orðið til þess að störf innan leikskólanna þykja eftirsóknarverðari og ráðningar hafa gengið betur en oft áður.

Lækkun leikskólagjalda

Leikskólagjöld fyrir 30 stunda dvöl og skemur á viku lækka umtalsvert eða allt að 30%. Gjöld fyrir 40 klukkustunda dvöl á viku verða óbreytt.

Dæmi: Frá og með 1. september 2024 verða mánaðargjöld fyrir 40 stundir á viku kr. 41.042.- og fyrir 30 stundir á viku kr. 19.962.-  Munurinn er kr. 21.080.- á mánuði eða kr. 231.880.- á ári miðað við ellefu mánuði og einn mánuð í sumarfrí. Eftir því sem dvalarstundum fækkar þá lækka gjöldin eins og sjá má á meðfylgjandi töflu sem sýnir gjöld með fæðisgjaldi.

Afsláttur er í boði. Systkinaafsláttur, tekjutengdur afsláttur og afsláttur vegna andláts maka eða skyndilegrar örorku. Sjá nánar hér

Já, það er leikur að læra, lifa og njóta í leikskólum Hafnarfjarðar!

Ábendingagátt