Félagsstarf og tómstundir barna og ungmenna með fötlun  

Fréttir

Hafnarfjarðarbær býður upp á fjölbreytt frístundastarf fyrir börn og ungmenni með fötlun sem hefur það að markmiði að veita hverjum og einum tækifæri og einstaklingsmiðaðan stuðning til að lifa sjálfstæðu og virku lífi. Í Hafnarfirði er þjónandi leiðsögn höfð að leiðarljósi í öllu starfi og hlýja og hvatning er sýnd í umhverfi og aðstæðum. 

Fjölbreytt frístundastarf í hvetjandi og öruggu umhverfi

Hafnarfjarðarbær býður upp á fjölbreytt frístundastarf fyrir börn og ungmenni með fötlun sem hefur það að markmiði að veita hverjum og einum tækifæri og einstaklingsmiðaðan stuðning til að lifa sjálfstæðu og virku lífi. Í Hafnarfirði er þjónandi leiðsögn höfð að leiðarljósi í öllu starfi og hlýja og hvatning er sýnd í umhverfi og aðstæðum. 

Hópastarf fyrir ungmenni með fötlun í tveimur skólum

Boðið er upp á hópastarf fyrir ungmenni með fötlun í 5. – 7. bekk í félagsmiðstöðinni Öldunni í Öldutúnsskóla og hópastarf fyrir ungmenni með fötlun í 8. – 10. bekk í Mosanum í Hraunvallaskóla. Hópastarfið er hugsa fyrir þau ungmenni sem þurfa á auknum félagslegum stuðning að halda og vilja komast í hóp þar sem þau fá tækifæri til að kynnast jafningjum sínum. Markmið starfsins er að veita ungmennum stuðning til þess að efla félagsfærni sína og mynda tengsl, æfa samskipti og byggja upp traust í öruggu umhverfi.  Ungmennin sjálf hafa bein áhrif á dagskrá starfsins, fá tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri og undirbúa starfsemi hópastastarfsins. Foreldrar/forsjáraðilar þurfa að sækja um hópastarfið þannig að tryggja megi að undirbúningur verði sem bestur og þátttakan verði sem ánægjulegust.  

Frístundaúrræðið Kletturinn

Kletturinn er sértækt frístundarúrræði fyrir börn og ungmenni með ýmsar fatlanir þar sem áhersla er lögð á þá leiðsögn og verkfæri sem hver og einn einstaklingur þarf til að vaxa, dafna og njóta sín í öruggu umhverfi. Opið hús verður alla miðvikudaga í vetur frá 18 til 20 og er ungmennum í 8.- 10. bekk velkomið að mæta þá sérstaklega þau sem þurfa á sérstökum félagslegum stuðningi að halda. Markmiðið er meðal annars að rjúfa einangrun og þjálfa og styrkja ungmenni til þátttöku og virkni í félagslegum aðstæðum. Kletturinn er staðsettur á Suðurgötu 14 í Hafnarfirði og er inngangurinn Strandgötu-megin á fyrstu hæð. Það er ekki nauðsynlegt að skrá sig í Kvöldklettinn en þeim sem eru með mikla þjónustuþörf er bent á að fá t.d. liðveitanda með sér. Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Ernu Sóley: ernas@hafnarfjordur.is. Upplýsingar um Klettinn

Vinaskjól

Í Vinaskjóli geta 16–20 ára ungmenni sem eru í framhaldsskóla dvalið á daginn eftir að skóla lýkur. Markmið Vinaskjóls er að styðja ungmennin til sjálfstæðis, efla vald- og sjálfsákvörðunarrétt þeirra, auka félagslega færni og almenna þátttöku. Með starfinu er lögð áhersla á eflingu sjálfstrausts og samkenndar með öðrum, sem og skemmtilegum frítíma sem ungmennin taka þátt í að skipuleggja. Skráning fer fram á frístundavefnum Völu eða með því að tala við ráðgjafa hjá sveitarfélaginu sem ungmennið býr í. Vinaskjól er opið alla virka daga frá 12–17. Á starfsdögum eða öðrum skertum skóladögum er Vinaskjól opið frá 8–17. Þá daga þarf að sækja um lengri viðveru á netfangið vinaskjol@hafnarfjordur.is eða í síma 565 5100. Upplýsingar um Vinaskjól 

Kvöldstarfið

Kvöldstarfið í Húsinu er tómstundastarf fyrir ungmenni með fötlun (16–25 ára). Starfið er mótað að áhuga þeirra sem mæta og reynt er að tryggja að starfið sé fjölbreytt. Til dæmis er farið í sund, spilakvöld, ísbúð og haldin pítsu-partý. Áhersla er lögð á félagsleg tengsl og vináttuþjálfun. Á Facebook-hóp Kvöldstarfsins er hægt að sjá upplýsingar um dagskrána. Kvöldstarfið er mánudaga og miðvikudaga frá 18 til 22. Starfið er frá ágúst til júní. Það þarf ekki að skrá sig heldur gildir bara að mæta. Þau sem þurfa aukinn stuðning þurfa að mæta með sína aðstoðarmanneskju. Upplýsingar um Kvöldstarfið 

Kynnið ykkur starf félagsmiðstöðvanna 

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan 2024 stendur yfir dagana 14. – 18. október. Foreldrar, forsjáraðilar, systkini og önnur áhugasöm eru hvött til að kynna sér starfsemi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa í Hafnarfirði og hvetja börn sín og ungmenni til virkrar þátttöku. 

Ábendingagátt