Gert ráð fyrir góðum rekstrarafgangi hjá Hafnarfjarðarbæ

Fréttir

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar sem samþykkt var í bæjarstjórn í dag.  Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðar er góð og er áætlað að skuldaviðmið sveitarfélagsins verði komið niður í um 93% í árslok 2023. Útsvarsprósenta verður óbreytt.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar sem samþykkt var í bæjarstjórn í dag gerir ráð fyrir 1.157 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta sveitarfélagsins á næsta ári. Rekstur A-hluta verður jákvæður um 591 milljón króna á árinu 2023 samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 3,9% af heildartekjum eða 1.697 milljónir króna.

Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðar er góð og er áætlað að skuldaviðmið sveitarfélagsins haldi áfram að lækka og verði komið niður í um 93% í árslok 2023, sem er vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Útsvarsprósenta verður óbreytt og dregið verður úr heildarálagningu fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði með lækkun á vatns- og fráveitugjöldum. Skattprósenta á atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði er sem fyrr ein sú lægsta á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er afar jákvætt að Hafnarfjarðarbær skili góðum rekstrarafgangi í núverandi umhverfi sem er að reynast mörgum sveitarfélögum krefjandi. Tekist hefur að verja hagsmuni íbúa og sækja fram án þess að skuldsetja bæjarfélagið,” segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. “Óvíða á landinu á sér nú stað jafn mikil uppbygging og í Hafnarfirði og er áætlað að íbúum bæjarins muni fjölga um allt að fjórðung næstu þrjú til fjögur árin. Íbúðarhverfi rísa og stækka með blandaðri byggð í fallegu umhverfi í Hamranesi, Skarðshlíð og Áslandi og þéttingu á eldri svæðum.  Samhliða fjölgar fyrirtækjum jafnt og þétt í Hafnarfirði. Það eru einnig ýmis stór verkefni í undirbúningi í bænum eins og þróun miðbæjar og Flensborgarhafnar, fyrirhugaður flutningur Tækniskólans við höfnina, þróun Krýsuvíkursvæðisins og stóraukin umsvif í Straumsvík í tengslum við CodaTerminal.  Þessi verkefni munu komast á verulegt skrið á komandi mánuðum og misserum.“

Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins, með heildarútgjöld sem nema um 38,0 milljörðum króna, áætlaðan launakostnað upp á 21,7 milljarða króna og áætlaðan fjármagnskostnað sem nemur um 2,4 milljörðum króna. Árið 2021 var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 709 milljónir króna og árið 2020 jákvæð sem nam 2.264 milljónum króna.  Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var lögð fram til seinni umræðu og samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar miðvikudaginn 7. desember 2022. Fjárhagsáætlun nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2024-2026.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2023

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 1.157 milljón króna
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 591 milljón króna
  • Skuldaviðmið heldur áfram að lækka og er áætlað um 93% í árslok 2023
  • Gerð verður hagræðingarkrafa í rekstri sveitarfélagsins á árinu 2023 sem nemur 500 milljónum króna
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 1.697 milljónir króna eða 3,9% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta óbreytt, eða 14,48%
  • Dregið úr heildarálagningu fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði með lækkun á vatns- og fráveitugjöldum
  • Áætlaðar fjárfestingar nema liðlega 7 milljörðum króna
  • Mikil fjölgun íbúa á næsta ári auk þess sem æ fleiri fyrirtæki kjósa að setjast að í Hafnarfirði

Nokkrar helstu fjárfestingar í nýrri fjárhagsáætlun

Fjárheimild til framkvæmda fyrir árið 2023 er um 7 milljarðar króna. Í áætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í þágu grunnþjónustu, svo sem umhverfismála, samgangna, íþróttaaðstöðu, húsnæðis og fráveitumála.

  • Frágangur á nýbyggingarsvæðum s.s malbikun, gerð stétta, stíga og leiksvæða
  • Endurgerð gatnamóta og gönguleiða og sérstakt átak í að efla hjólreiðaleiðir
  • Gróður aukinn í hverfum bæjarins og átak í grænkun Valla
  • Fegrun Hellisgerðis á aldarafmæli garðsins
  • Bygging knatthúss á félagssvæði Hauka
  • Bygging nýrrar reiðhallar á félagssvæði Sörla
  • Gerð „hybrid“-knattspyrnuvallar á félagssvæði FH
  • Lagfæringar á aðstöðu í Íþróttahúsinu við Strandgötu
  • Endurgerð innanhúss í Sundhöll Hafnarfjarðar sem verður 80 ára á árinu
  • Þá verður farið í fjölmargar aðrar framkvæmdir, m.a. í skólum, leikskólum, leiksvæðum og ferðamannastöðum, auk frekari uppbyggingar á Suðurhöfninni og framkvæmda Vatnsveitu og Fráveitu.

Meðfylgjandi eru fjárhagsáætlun og fylgigögn fjárhagsáætlunar 2023-2026:

Ábendingagátt