Oft fyrstu kynni ungmenna af launuðu starfi

Fréttir

Vinnuskóli Hafnarfjarðar er hugsaður sem fyrsti vinnustaður ungmenna þar sem þau fá að upplifa það að vera á vinnumarkaði og læra að vera hluti af honum í öruggu starfsumhverfi. Þetta eru oft þeirra fyrstu kynni af launuðu starfi og þau fá að taka þessi fyrstu skref undir góðri handleiðslu og með sínum jafnöldrum.

Vinnuskólinn snýst ekki aðeins um vinnuna sjálfa

Vinnuskóli Hafnarfjarðar er hugsaður sem fyrsti vinnustaður ungmenna þar sem þau fá að upplifa það að vera á vinnumarkaði og læra að vera hluti af honum í öruggu starfsumhverfi. Þetta eru oft þeirra fyrstu kynni af launuðu starfi og þau fá að taka þessi fyrstu skref undir góðri handleiðslu og með sínum jafnöldrum. Bergþór Snær Gunnarsson er umsjónarmaður Vinnuskóla Hafnar­fjarðar sumarið 2023 en hann hefur unnið í vinnuskólanum í fjögur ár og unnið sig upp í starfi, úr flokkstjóra í verkstjóra í umsjónarmann. Hann hefur yfirumsjón með framkvæmd og fyrir­komu­lagi vinnuskólans og sér um að skipuleggja starfið ásamt fleiru frábæru fólki. Bergþór er með Bs. gráðu í sjúkra­þjálfun frá Háskóla Íslands.

„Vinnuskólinn snýst ekki aðeins um vinnuna sjálfa heldur er hann líka hugsaður til að virkja ungmenni félagslega, hjálpa þeim að halda rútínu og draga úr félagslegri einangrun á sumrin. Við í Vinnuskólanum leggjum mikið upp úr því að það sé gaman í vinnunni og brjótum upp vinnudagana með jafningjafræðslu, höldum keppni um best hreinsaða beðið og svo er sumarhátíð Vinnuskólans undir lok sumars gulrótin en af henni vill enginn missa,“ segir Bergþór. „Ég var sjálfur í vinnuskólanum öll mín sumur sem unglingur og fannst það virkilega góður staður til þess að fá mína fyrstu reynslu á vinnumarkaði. Það er nefnilega eitt sem einkennir Vinnuskólann að hann verðlaunar þeim sem standa sig vel og því auðvelt að vinna sig upp í eftirsóttustu störfin ef maður stendur sig vel.“

Öll á aldrinum 14-17 ára fá vinnu í vinnuskólanum

Öll hafnfirsk ungmenni á aldrinum 14-17 ára sem sækja um hjá Vinnu­skólanum fá vinnu. „Eftir því sem ungmenni eldast og eru orðin reynslu­meiri geta þau sótt um fjölbreyttari vinnustaði.“ Allir sem eru á sínu fyrsta ári í unglingadeild fá vinnu í almennum hópi í sínu skólahverfi. Strax ári seinna stendur þeim til boða að sækja um á leikjanámskeiðum, listahópi, jafningja­fræðslu og fleira. „Við getum að sjálf­sögðu ekki orðið að óskum allra en þarna spilar einmitt inn í að duglegir starfsmenn eiga auðveldara með að vinna sig upp. Síðan erum við með fjölbreytt störf í boði fyrir 18 ára og eldri en því miður er ekki hægt að tryggja öllum í þeim aldurshópi vinnu hjá Vinnuskólanum,“ segir Bergþór.

Eitt helsta verkefni vinnuskólans er að halda bænum hreinum og fallegum

Vinnuskólinn býður upp á mörg mismunandi störf t.d. vinnu í almennum hópum, hjá íþróttafélögum, í listahópi, í jafningjafræðslu, á söfnum, á leikja­námskeiðum og leikskólum. Aldurs­takmörk eru á ákveðna starfsstaði og í ákveðin verkefni og meira í boði eftir því sem ungmennin eldast. Eitt helsta verk­efni Vinnuskólans ár hvert er að halda Hafnarfirði hreinum og fallegum. Almennir hópar eru starfandi víðsvegar um bæinn, morgunhópur í miðbænum og nokkrir hópar fyrir 18 ára og eldri sem sjá t.d. um slátt og gróðursetningu blóma.

Kynning í blaðinu Hafnfirsk æska sem gefið er út af Fjarðarfréttum 22. maí 2023

Ábendingagátt