Skapandi sumarstörf stökkpallur fyrir ungt hafnfirskt listafólk   

Fréttir

Stuttmyndin “Kílómetrar” er hópi þeirra stuttmynda sem tilnefndar eru til Edduverðlaunanna 2023. Óli Gunnar og Vilberg Andri voru hluti af hópi þeirra ungmenna sem unnu við skapandi sumarstörf hjá Hafnarfjarðarbæ sumarið 2021. Opið er fyrir umsóknir sumarið 2023 þar sem nýr hópur hæfileikaríkra einstaklinga fær tækifæri til að blómstra.

Kílómetrar í hópi tilnefninga til Eddunnar 2023

Stuttmyndin “Kílómetrar”, sem er skrifuð, leikstýrð og leikin af Óla Gunnari Gunnarssyni og Vilbergi Andra, er hópi þeirra stuttmynda sem tilnefndar eru til Edduverðlaunanna 2023. Endanlegt val fer fram á hátíðinni sem haldin verður í Háskólabíó 19. mars. Óli Gunnar og Vilberg Andri voru hluti af hópi þeirra ungmenna sem unnu við skapandi sumarstörf hjá Hafnarfjarðarbæ sumarið 2021. Opið er fyrir umsóknir í sumarstörf Hafnarfjarðarbæjar 2023 þar sem nýr hópur hæfileikaríkra einstaklinga á aldrinum 18-25 ára fær tækifæri til að blómstra.

Hópur ungmenna í skapandi sumarstörfum sumarið 2021. Hér með Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra. 

Hópur ungmenna í skapandi sumarstörfum sumarið 2021. Hér með Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra.

Kílómetrar fjallar um tvo vini á kveðjustund

Kílómetrar fjallar um tvo bestu vini sem eru að halda í ólíkar áttir í lífinu og eru að kveðjast á Keflavíkurflugvelli. Annar þeirra er á leið í nám erlendis og ætlar að búa sér til nýtt líf á nýjum stað. Hinn er áfram á Íslandi, er að flytja inn með kærustunni og í atvinnuleit. Handrit er lauslega byggt á eigin reynslu þeirra félaga við að vaxa úr grasi á Íslandi og standa frammi fyrir þeirri stóru ákvörðun og stóra skrefi fyrir ansi marga; að flytja út eða ekki? Stuttmyndin er ein löng sena sem gerist í einum bíl í einu skoti. Eiríkur Ingi Böðvarsson sá um upptöku og eftirvinnslu og Brynjar Unnsteinsson um hljóðblöndun á myndinni.

Skapandi sumarstörf 2023 – umsóknarfrestur til og með 31. mars 2023

Í sumar býðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Einstaklingar og hópar fá tækifæri til að starfa í sumar við að sinna skapandi verkefnum og kynna þau fyrir bæjarbúum og gestum yfir sumartímann. Skapandi sumarstörf, sem rekin eru sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar, í samstarfi við Hamarinn, er ætlað sem stökkpallur fyrir ungt hafnfirskt listafólk til að þróa sig áfram og þjálfa sig í að koma listsköpun sinni á framfæri. Við val á verkefnum verður meðal annars tekið tillit til raunhæfni og frumleika verkefnisins, fjárhagsáætlunar, fjölbreytni verkefna, kynjahlutfalli umsækjenda og gæði umsókna. Horft er sérstaklega til fjölbreytileika verkefna og þess að þau höfði til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Valdir hópar fá svo tækifæri til að lífga upp á mannlíf og skemmtun í hjarta Hafnarfjarðar og gleðja ferðamenn og íbúa með alls kyns uppátækjum. Hægt er að fá aðstoð við gerð umsóknar hjá Möggu Gauju deildastjóra Hamarsins. Hægt er að nálgast Möggu Gauju alla daga í Hamrinum, í síma 6645551 eða með tölvupósti á mgm@hafnarfjordur.is.

Ábendingagátt