Stekkjarás í tuttugu ár

Fréttir

Leikskólinn Stekkjarás fagnar 20 ára afmæli þetta skólaárið og var blásið í lúðra og afmælinu fagnað í dag í prúðbúnum og fallegum félagsskap. Börn og starfsfólk tóku vel á móti bæjarstjóra, Valdimari Víðissyni og fríðu föruneyti. Stekkjarás tók til starfa 8. september 2004, er átta deilda leikskóli með tvær ungbarnadeildir og rúmlega 150 nemendur. Börnin eru í brennidepli í öllu skólastarfinu. Hlustað er á hugmyndir þeirra og vinnan aðlöguð að hæfni þeirra og möguleikum.

Hugmyndir barnsins, verkefni dagsins

Leikskólinn Stekkjarás fagnar 20 ára afmæli þetta skólaárið og var blásið í lúðra og afmælinu fagnað í dag miðvikudaginn 5. febrúar í prúðbúnum og fallegum félagsskap. Börn og starfsfólk tóku vel á móti bæjarstjóra, Valdimari Víðissyni og fríðu föruneyti. Stekkjarás tók til starfa 8. september 2004, er átta deilda leikskóli með tvær ungbarnadeildir og rúmlega 150 nemendur. Börnin eru í brennidepli í öllu skólastarfinu. Hlustað er á hugmyndir þeirra og vinnan aðlöguð að hæfni þeirra og möguleikum.

„Hér er gott að vera og greinilegt að leikskólaandinn er bæði skapandi og góður,“ segir Valdimar.

Skapandi efnisveita eitt af einkennismerkjum skólans

Á hverju ári í kringum Dag leikskólans þá umbreyta starfsfólk og nemendur sal skólans í skapandi efnisveitu og opna skólann fyrir foreldrum og forsjáraðilum.  „Remida eða skapandi efnisveita skapar stóran sess í starfsaðferðum okkar og kristallast áherslan yfir á allt okkar starf og hegðun innahúss,“ segir Harpa Kolbeinsdóttir leikskólastjóri. „Skapandi hugsun, notkun opins efniviðar í listsköpun, útinám, leikurinn, aldursblöndun, sérkennsla og gott foreldrasamstarf er lykillinn í okkar skólastarfi.“ Í leikskólunum nota börnin, endurnýtanlegan efnivið til að útfæra hugmyndir sínar á frjálsan, fjölbreyttan og skapandi hátt. Efniviðurinn er fenginn víða að, frá starfsfólki, foreldrum og fyrirtækjum. Veggir skólans varðveita sköpun barnanna sem einnig hefur skilað sér inn á veggi hafnfirskra heimila.

Í Stekkjarási:

  • er umhverfið þriðji kennarinn, barnið lærir af fullorðnum, öðrum börnum og umhverfinu
  • eiga börn rétt á því að fá ögrandi verkefni sem efla getu þeirra til að takast á við lífið
  • á menntun að stuðla að því að börn verði frumkvöðlar en ekki fylgjendur
  • eru börn klár og mikils megnug

Leikskólinn Stekkjarás er í Áslandinu í Hafnarfirði. Nálægð við náttúruna er verðmæt og mikilvæg og tækifæri óspart nýtt til að upplifa og njóta úti við.

Innilega til hamingju öll með Stekkjarás!

Ábendingagátt