Syngjandi glöð söngkona á Holtinu fær fyrsta tvískipta sorpílátið

Fréttir

Dreifing á nýjum tvískiptum sorpílátum hófst á Holtinu í Hafnarfirði í gær. Guðrún Árný Karlsdóttir söngkona, kennari og íbúi á Holtinu tók syngjandi glöð á móti nýju íláti, plastkörfu og bréfpoka fyrst allra íbúa í Hafnarfirði. Öll sérbýli fá til eignar eitt nýtt tvískipt ílát fyrir matarleifar og blandaðan úrgang.

Öll heimili fá nýtt sorpílát keyrt heim og afhent til eignar

Dreifing á nýjum tvískiptum sorpílátum hófst á Holtinu í Hafnarfirði í gær. Guðrún Árný Karlsdóttir söngkona, kennari og íbúi á Holtinu tók syngjandi glöð á móti nýju íláti, plastkörfu og bréfpoka fyrst allra íbúa í Hafnarfirði. Öll sérbýli fá til eignar eitt nýtt tvískipt ílát fyrir matarleifar og blandaðan úrgang og fjölbýli ný ílát fyrir matarleifar. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, ásamt fríðum flokki starfsfólks, færðu söngkonunni nýtt ílát með hvatningu og fyrirfram þökkum fyrir virka þátttöku í þessu mikilvæga umhverfisverkefni sem er samræmt meðal sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Komin með þrjú ílát við húsvegginn heima

Nýtt flokkunarkerfi felur í sér að nú verður fjórum úrgangsflokkum safnað við hvert heimili bæjarins lögum samkvæmt. Öðrum flokkum þarf að skila beint í viðeigandi gáma á Sorpu eða í grenndargáma. Guðrún Árný og eiginmaður hennar, Sveinbjörn Enoksson, fengu í gær afhent fyrsta tvískipta ílátið í Hafnarfirði. Þær tvær tunnur sem fyrir voru heima hjá þeim voru endurmerktar fyrir plast annarsvegar og pappír hinsvegar. „Við erum í hópi þeirra íbúa sem eru með tiltölulega nýtt skýli fyrir tvær tunnur en nú bætist við sú þriðja og þá vandast málið. Við ætlum að taka púlsinn á þörfinni hér heima í sumar og munum þá annað hvort stækka skýlið eða óska eftir öðru tvískiptu íláti með haustinu. Ég er vandræðilega spennt fyrir þessu,“ segir Guðrún Árný. Íbúar í Hafnarfirði eru hvattir til að temja sér nýja flokkun, prófa nýtt fyrirkomulag og fjölda tunna í sumar og fram haustið til að fá sem besta tilfinningu fyrir þörf heimilisins. Með haustinu verður hægt að kaupa annað tvískipt 240L sorpílát fyrir plast og pappír og skipta út fyrir 240L plastílát og 240L pappírsílát.

Minnkum sóun og endurnýtum verðmæti

Með nýju flokkunarkerfi við heimili á suðvesturhorninu er stigið mjög stórt skref í umhverfismálum sveitarfélaganna. Með réttri flokkun er hægt að minnka sóun og endurnýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent. „Ég ætla að taka þetta alla leið. Mér er mjög annt um umhverfið og framtíðina og nú er stóra stundin runnin upp. Stundin þar sem heimilisflokkunin verður tekin föstum tökum. Þetta snýst allt um rétt hugarfar og að hugsa í lausnum,“ segir Guðrún Árný syngjandi glöð.

Ábendingagátt