Grunnskóli

Börn byrja í grunnskóla árið sem þau verða 6 ára og eru þá skólaskyld í 10 ár.

Gagnlegar upplýsingar

Röskun á skólastarfi

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendir út tilkynningar um veður þegar á þarf að halda, í samráði við lögreglu og fræðsluyfirvöld.

Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar fylgist vel með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum tilmælum frá yfirvöldum sem gætu haft áhrif á skólastarf barna og bregðist við í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Skólaakstur

Ef barnið þitt fær skólavist í sérskóla, sérdeild utan bæjarins eða sérdeild utan skólahverfisins (lengra en 1,2 km frá heimilinu) á það rétt á skólaakstri eða strætófargjaldi á vegum bæjarins. Sérstakar reglur gilda um skólaakstur fatlaðra barna.

Systkinaafsláttur af mataráskrift

Ef þú átt tvö eða fleiri börn í grunnskóla færðu 25% afslátt af mataráskrift fyrir annað systkinið og 100% afslátt frá og með því þriðja. Systkini verða að vera með sama lögheimili og fjölskyldunúmer í Þjóðskrá.

Ef þú uppfyllir þessar reglur þarf ekki að sækja um sérstaklega, annars þarf að sækja um á Mínum síðum Hafnarfjarðarbæjar. Sækja þarf um fyrir 20. mánaðar til að fá afslátt fyrir mánuðinn eftir. Afslátturinn er ekki afturvirkur.


Spjaldtölvur í skóla

Nemendur í 5.–10. bekk fá lánaðan persónu­legan iPad til afnota. Lánið er háð samþykki aðstandenda og notkunin er á ábyrgð nemenda þótt allt sé gert til að tryggja öryggi í umgengni við tækin. Hver skóli er með eigin reglur um notin, til dæmis hvenær nemendur mega fara með tækin heim. Öllum iPöddum, sem nemendur hafa fengið lánaða á að skila til skóla á sumrin.

Vetrarfrí

Í 2 daga í október og 2 daga í febrúar er vetrarfrí í öllum grunnskólum bæjarins. Þá eru frístundaheimilin lokuð. Nánari upplýsingar um dagsetningar vetrarfrís má nálgast á skóladagatali á vefsíðum grunnskólanna.

Tölvur og tækni í grunnskóla

  • Ábyrgð skóla. Skólarnir leggja áherslu á öryggi í tölvunotkun nemenda til að tryggja persónulega vernd, viðhafa leynd upplýsinga gagnvart óviðkomandi og koma í veg fyrir aðgengi óprúttinna aðila að nemendum. Takmarkanir eru í tölvukerfi skólanna sem ætlað er að sía frá ofbeldis- og kynferðisefni og draga úr hættu á að nemendur verði fyrir óæskilegum áhrifum.
  • Tölvureglur og samskiptahættir. Skólarnir eru með ákveðnar reglur um notkun nemenda á tækjum og búnaði skólanna. Reglurnar eiga að vernda nemendur, koma í veg fyrir öryggisbrot og að kenna heppilega notkun tækja og tóla. Hver skóli kynnir reglurnar fyrir sínum nemendum og aðstandendum og eru þær aðgengilegar á vefum skólanna.
  • Áhættumat kennsluforrita. Bærinn stendur fyrir áhættumati á kennsluforritum, sérstaklega þeim sem eru notuð í spjaldtölvum skólanna. Það er gert til að passa  að forrit séu ekki að sækja persónuleg gögn um nemendur og miðla þeim til óviðkomandi. Ef forrit eru ekki talin örugg eða hafa ekki verið áhættumetin eru þau ekki sett upp á tölvur skólanna.
  • Öryggisbrot. Öryggisbrot eru misnotkun á tölvukerfum bæjarins. Þau geta verið af ýmsu tagi, til dæmis leki skóla á persónulegum upplýsingum, stuldur óprúttinna aðila á gögnum skóla eða misnotkun nemenda á tækjum sem bærinn hefur veitt þeim aðgang að. Þegar upp kemst um öryggisbrot er brugðist við eftir eðli brotsins hverju sinni. Hver skóli vinnur þau mál í samstarfi við þróunar- og tölvudeild Hafnarfjarðarbæjar eins og við á.
  • Ábyrgð foreldra. Foreldrar og forsjáraðilar bera ábyrgð á hegðun barna sinna, líka þeim sem snúa að tölvum og tækni í skólastarfi. Mikilvægt er að foreldrar séu fyrirmynd barna um heppilega tölvunotkun og taki á misnotkun barna sinna.
  • Ábyrgð nemanda. Í skólanum er áherslan á að kenna nemendum sem besta og heppilegasta notkun og beitingu tölvutækninnar en nemendur þurfa samt að taka ábyrgð á eigin tölvunotkun, í samstarfi við foreldra.