Grunnskólar

Börn byrja í grunnskóla árið sem þau verða 6 ára og eru þá skólaskyld í 10 ár.

Farsæld barna

Farsæld barna

Börn geta fengið ýmis konar stuðning í grunnskólum. Nánari upplýsingar um þjónustuna fæst í hverjum skóla fyrir sig.

Samþætt þjónusta

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi þann 1. janúar 2022. Meginmarkmið laganna er að skapa umgjörð sem stuðlar að því að börn og foreldrar, sem á þurfa að halda, hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
Öll börn undir 18 ára aldri og fjölskyldur þeirra skulu hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Hlutverk tengiliðar er:

  • að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi
  • að rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn
  • að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns
  • að aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns
  • að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns
  • að koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra
  • að taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á

Þegar barn er  við nám í leik-, grunn-, eða framhaldsskóla er tengiliður þjónustu í þágu farsældar barns starfsmaður skólans þar sem barnið er við nám eða leik.

Sérkennsla

Börn sem hafa sérþarfir í grunnskólum fá sérstaka þjónustu til að styðja við nám sitt, hvort sem það er tímabundið eða á allri skólagöngunni. Öll börn eiga rétt á stuðningi, engin krafa er um greiningu.

Stuðningurinn getur ýmist verið veittur inni í bekk samhliða almennri kennslu, í sérstökum kennslustofum með öðrum sérkennslunemendum, í sérdeildum innan grunnskólanna í Hafnarfirði eða í sérskólum utan bæjarins.

 

Kennsla tvítyngdra nemenda – túlkaþjónusta

Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eða hafa búið lengi erlendis eiga rétt á sérstakri íslenskukennslu. Sú kennsla fer fram í öllum grunnskólum bæjarins. Það er á ábyrgð hvers grunnskóla að koma á móts við börn sem þurfa á þessari aðstoð að halda og sjá um þjónustuna.

Foreldrar sem tala ekki íslensku eiga rétt á að fá túlkaþjónustu á foreldrafundum og öðrum samverum í skólum þeim að kostnaðarlausu.


Talmeinaþjónusta

Börn sem glíma við frávik í máli eða tali eiga rétt á greiningu talmeinafræðings ásamt sérkennslu og stuðningi við nám í grunnskóla. Talmeinafræðingur veitir einnig ráðgjöf til starfsfólks grunnskóla. Foreldrar geta óskað eftir greiningu og ráðgjöf talmeinafræðings, í öllum tilvikum þarf skriflegt samþykki foreldra að liggja fyrir áður en greining fer fram.


Náms- og starfsráðgjöf

Í hverjum skóla starfar námsráðgjafi sem sinnir náms- og starfsráðgjöf fyrir nemendur. Verkefni námsráðgjafa eru meðal annars að styðja einstaka nemendur, náms- og starfsfræðsla og vinna að forvörnum ásamt forvarnarfulltrúa.

 


Sálfræðiþjónusta

Sálfræðingur starfar í öllum grunnskólum bæjarins. Sálfræðingur skólans sinnir greiningu, fræðslu, stuðningi og ráðgjöf en ekki meðferð. Tilvísanir til sálfræðings berast í gegnum nemendaverndarráð eða brúarteymi grunnskólans. Samþykki foreldra verður alltaf að liggja fyrir. Tilefni beiðna geta verið margvísleg en áhersla er lögð á snemmtækt mat og greiningu á stöðu nemanda vegna náms, hegðunar og sálrænna erfiðleika.

Í gegnum brúarteymi skólanna er hægt að fara á ýmis námskeið sem styðja við nemendur og foreldra.

Dæmi um námskeið í boði:

  • Foreldrar til forystu, námskeið fyrir foreldra barna með kvíðaröskun.
  • PEERS námskeið í félagsfærni fyrir börn og unglinga með félagslega erfiðleika, einhverfu, ADHD, kvíða og þunglyndi.
  • PMTO (Parent Management Training–Oregon aðferð) meðferð fyrir börn með hegðunarvanda. Í boði er einstaklingsmeðferð, hópmeðferð og foreldranámskeið.


Nemendaverndarráð

Ef nemandi fær ekki fullnægjandi aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika getur foreldri talað við umsjónarkennari sem vísar málinu til nemendaverndarráðs.

Í nemendaverndarráði grunnskóla sitja:

  • skólastjóri eða fulltrúi sem hann tilnefnir
  • umsjónarkennari nemenda með sérþarfir
  • fulltrúi skólaheilsugæslu
  • fulltrúi sérfræðiþjónustu sveitarfélags
  • náms- og starfsráðgjafi

Leitað er lausna við aðstæðum og erfiðleikum barnsins, til dæmis með aðstoð brúarteymis. Teymið kortleggur stöðu barnsins og leitar sameiginlegra lausna til að styðja við barnið og fjölskyldu.