Hreinsun og umhirða

Fallegt og öruggt nærumhverfi lætur öllum líða betur.

Umhverfisvaktin

Markmiðið umhverfisvaktarinnar er að efla umhverfisvitund íbúa, fegurri bær og aukin hreinsun. Félög og hópar geta fegrað bæinn og fengið styrk fyrir.

Vilt þú vera á umhverfisvaktinni?

Félögum og hópum stendur til boða að sjá um hreinsun á tólf skilgreindum svæðum í Hafnarfirði gegn fjárstyrk. Einn hópur sér um hvert svæði. Á hverju svæði er lögð áhersla á að hreinsa rusl og drasl með aðalstígum og stofnbrautum, með lækjum, tjörnum og strandlengju, á náttúrulegum hraunasvæðum og opnum svæðum. Hóparnir sem verða fyrir valinu þurfa að hreinsa sitt svæði tvisvar sinnum á ári, einu sinni á tímabilinu 1. maí–1. júní og aftur á tímabilinu 1.–30. september.

Miðað er við að greiðsla fyrir hvert svæði sé 75.000 kr. skiptið, samtals 150.000 kr. hámark fyrir hvert svæði.

Auglýst er eftir hópum á fyrri hluta hvers árs. Nánari upplýsingar má fá á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is eða í síma 585 5500.

Hver getur verið á umhverfisvaktinni?

Verkefnið er opið öllum félögum, samtökum og hópum. Leitast er við að velja hópa með fjölbreytilega starfsemi til verksins.

Hver hópur þarf hópstjóra sem sér um samskipti við bæinn. Skipulagt er í samráði hvenær farið er í hreinsun og hvernig staðið verður að henni. Ef hópar sem eru skipaðir börnum eða unglingum sækja um þátttöku (til dæmis yngri flokkar íþróttafélaga eða skátaflokkar) er skilyrði að hópstjóri sé fullorðinn og að fullorðnir starfi með börnunum við hreinsunina.

Í umsókn hópa þurfa meðfylgjandi upplýsingar að koma fram:

  • Nafn félags, samtaka eða hóps.
  • Helstu markmið og tilgangur félagsins.
  • Stutt greinargerð um starfsemina síðustu 3 ár.
  • Fjöldi félaga og aldursdreifing (börn, unglingar og fullorðnir).
  • Hverjir munu vinna verkið (ef börn eða unglingar, hverjir vinna með þeim).
  • Hvernig nota á styrkinn.
  • Óskir um svæði ef einhverjar eru.
  • Nafn og upplýsingar um hópstjóra (heimilisfang, sími, netfang).

Hægt er að fá ruslapoka hjá Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar að Norðurhellu 2 ef hópar vilja.