Félagsleg úrræði

Allir íbúar Hafnarfjarðar eiga að geta búið við fjárhagslegt og félagslegt öryggi.

Húsnæðismál

Fólk sem hefur ekki tök á að eignast eða leigja húsnæði á almennum markaði getur sótt um félagslegt húsnæði á viðráðanlegu leiguverði. Einnig er hægt að fá sérstakan húsnæðisstuðning á almennum markaði.

Félagslegt leiguhúsnæði

Leiga í félagslegu leiguhúsnæði er tímabundið úrræði þar til fólk hefur tök á að leigja eða eignast eigið húsnæði. Umsóknina þarf að endurnýja á hverju ári. Breytingar á hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð og fjárhagsstöðu geta haft áhrif á rétt á leigunni.

Hverjir eiga rétt á félagslegu húsnæði?

Til að eiga rétt á félagslegu leiguhúsnæði þarf að uppfylla viss skilyrði varðandi tekjur, húsnæði og félagslegar aðstæður.

Að sækja um félagslegt húsnæði

Sótt er um félagslegt húsnæði á Mínum síðum. Til að fá meiri upplýsingar geturðu haft samband við húsnæðisfulltrúa á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 9.00–9:30 í síma 585 5500.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárhagslegur stuðningur umfram húsnæðisbætur. Stuðningurinn er fyrir einstaklinga og fjölskyldur á leigumarkaði með lágar tekjur og þunga framfærslubyrði.

Að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning

Til að fá sérstakan húsnæðisstuðning þarf fyrst að sækja um húsnæðisbætur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Skilyrði:

  • Eiga rétt á húsnæðisbótum
  • Vera 18 ára eða eldri á umsóknardegi
  • Eiga lögheimili í Hafnarfirði
  • Leiguhúsnæði sé í Hafnarfirði, nema húsnæðið sé fyrir 15–17 ára börn, sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum hér á landi vegna náms fjarri lögheimili

Upphæð sérstaks húsnæðisstuðnings

Óskertur sérstakur húsnæðisstuðningur er 90% af upphæð húsnæðisbóta. Stuðningurinn getur skerst af eftirfarandi ástæðum:

  • Upphæðin getur aldrei farið yfir 75% af húsnæðiskostnaði.
  • Húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur er samtals að hámarki 90.200 krónur á mánuði.
  • Ef leiga að frádregnum húsnæðisbótum er 50.000 krónur eða lægri fellur stuðningurinn niður.