Vetrarhátíð í Hafnarfirði um helgina

Fréttir

Söfnin í Hafnarfirði og Ásvallalaug taka virkan þátt í Vetrarhátíð í Hafnarfirði með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Fjölbreytt dagskrá og frítt inn á alla viðburði

Vetrarhátíð verður haldin dagana 2.–4. febrúar og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samanstendur af þrem meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt og ljósalist ásamt fjölbreyttum viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu á höfuðborgarsvæðinu.

Safnanótt
Föstudaginn 3. febrúar frá kl. 18-23

Á Byggðasafni Hafnarfjarðar, Bókasafni Hafnarfjarðar og í Hafnarborg verður boðið upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá á Safnanótt föstudagskvöldið 3. febrúar en þá opna fjölmörg söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá kl. 18-23. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna, litríka og líflega viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Safnanótt var síðast haldin árið 2020 og eftirvæntingin því mikil. Íbúar og gestir á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu.

Á Bókasafni Hafnarfjarðar mæta andlitsmálarar og Blaðrarinn sívinsæli, sagan Tindátarnir verður sögð með skuggabrúðuleikhúsi af listamönnum Kómedíuleikhússins og fram fer rómantískur og (ó)huggulegur bókmenntaviðburður þar sem glæpasagnadrottningar og nýliði ársins í sakamálum spjalla.

Á Byggðasafninu verða leikarar á sveimi um Pakkhúsið og glæða safnið lífi, hægt verður að skoða magnaða muni í myrkrinu í Beggubúð og tónlistarhópurinn Klassík heldur tónleika kl. 19:30.

Í Hafnarborg verður verki eftir myndlistarkonuna Þórdísi Erlu Zoëga varpað á gafl Hafnarborgar, Sunna Gunnlaugs Trio kemur fram á síðdegistónleikum kl. 18 og Anna Rós Lárusdóttir býður uppá jógastund fyrir alla innan um skúlptúra listakonunnar Sóleyjar Eiríksdóttur. Á laugardag býður Hafnarborg svo uppá jógastund fyrir fjölskylduna kl. 14.

Heildardagskrá safnanætur í Hafnarfirði

Sundlauganótt í Ásvallalaug
Laugardaginn 4. febrúar frá kl. 17-22

Ásvallalaug verður opin fram á kvöld og í boði skemmtileg dagskrá laugardaginn 4. febrúar frá kl. 17-22 en þá verður frítt í sund í þrettán sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Ásvallalaug er í hópi þeirra. Uppákomur í laugunum verða af margvíslegum toga og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. Ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi, þar sem gestir eru hvattir til að taka þátt með því að slaka á og njóta stundarinnar.

Gestir í Ásvallalaug fá að upplifa öðruvísi kvöldstund í lauginni þar sem ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi. Gestir eru hvattir til að taka þátt með því að dansa og syngja til að byrja með en slaka svo á og njóta stundarinnar þegar líða tekur á kvöldið. Síkátu zúmbínurnar hefja dagskrána á Aqua zumba, Sundfélag Hafnarfjarðar stýrir bombukeppni um hver nær stærstu gusunni og Kvikmyndasafn Íslands býður upp á sundbíó og sýnir lifandi myndefni úr safnkosti meðal annars frá Hafnarfirði og landinu öllu á risaskjá.

Heildardagskrá sundlauganætur í Ásvallalaug

Ljósaslóð og tímabundið listaverk

Í tilefni Safnanætur verður verki eftir myndlistarkonuna Þórdísi Erlu Zoëga varpað á gafl Hafnarborgar, sem og innri vegg safnsins, svo vegfarendur, gestir og fólk í nágrenni þess fái notið þessa tímabundna listaverks. Þórdís lauk námi við Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2012 og hefur verið virk í sýningarhaldi bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Í listsköpun sinni vinnur Þórdís með tengsl okkar við hinn stafræna heim, stefnur og rútínur í margvíslegum miðlum.

Vegna vatnsveðurs er því miður ekki hægt að setja upp ljósaslóð í einkennislitum Vetrarhátíðar, grænum og fjólubláum, í Hellisgerði. Að hátíðinni lokinni verður hafist handa við að taka jólaljósin niður með hækkandi sól og á Vetrarhátíð er því síðasti séns að skoða ljósadýrðina í Hellisgerði.

Ljósaslóð Vetrarhátíðar verður í lykilhlutverki en það er gönguleið frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og niður á Austurvöll sem vörðuð er með ljóslistaverkum. Þessi ljóslistaverk munu lýsa upp miðbæinn frá kl. 18:30–22:30 alla daga Vetrarhátíðar. Gestir geta því notið útiveru og upplifunar utandyra með sínum nánustu á sínum eigin hraða.

Góða skemmtun og gleðilega Vetrarhátíð heima í Hafnarfirði og höfuðborgarsvæðinu öllu!

Ábendingagátt