Föstudaginn 2. júní kl. 18-21 verður gestum boðið að skyggnast á bak við tjöldin í safninu meðan unnið er að uppsetningu nýrra sýninga, sem opnaðar verða laugardaginn 10. júní kl. 14. Annars vegar er það sýningin Á hafi kyrrðarinnar, þar sem sýnd verða verk Hildar Ásgeirsdóttur Jónsson, og hins vegar er það sýningin Hikandi lína eftir Elísabetu Brynhildardóttur. Þá munu sérfræðingar safnsins taka á móti gestum og fjalla um ferlið þegar sýning verður til, auk þess sem gestir munu fá tækifæri til að hanna eigin sýningu inn í líkan Hafnarborgar af aðalsal safnsins.

Þá fagnar safnið um þetta leyti stórafmæli en nú eru liðin 40 ár frá stofnun safnsins. Var það þann 1. júní 1983 sem hjónin Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Sverrir Magnússon afhentu Hafnarfjarðarbæ gjafabréf að húseign þeirra við Strandgötu 34 ásamt veglegu listaverkasafni sem myndaði grunninn að Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Í tilefni af þessu verður boðið upp á afmælisköku og til sýnis verða myndaalbúm og munir frá fyrstu starfsárum safnsins, sem jafnan eru höfð í geymslu og fáir fletta nema starfsfólk Hafnarborgar.

Gakktu í bæinn er hluti af dagskrá Bjartra daga í Hafnarfirði sem hefjast þann 1. júní, á 115 ára afmæli bæjarins. Menningarhátíðin fagnar 20 ára afmæli í ár en hefð hefur skapast fyrir því að söfn, vinnustofur listamanna og verslanir hafi opið fram á kvöld fyrsta föstudaginn á meðan hátíðinni stendur. Þá er markmið hátíðarinnar að endurspegla það fjölbreytta menningarlíf sem á sér stað í Hafnarfirði.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Ábendingagátt