Farsæld barna

Öll börn eiga rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa þegar á þarf að halda. Börn og fjölskyldur þeirra hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barna sem aðstoðar við að sækja viðeigandi þjónustu.

Samþætt þjónusta

Farsæld barna

Á Íslandi hafa ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna tekið gildi. Þau eiga að sjá til þess að börn og for­eldrar hafi greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum.

Tengiliður þjónustu í þágu farsældar barns

Öll börn undir 18 ára aldri og fjölskyldur þeirra hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barna. Tengiliður er einstaklingur í nærumhverfi barnsins.

  • Frá meðgöngu að leikskólagöngu barns er tengiliður starfsmaður í heilsugæslu.
  • Þegar barn er  við nám í leik-, grunn-, eða framhaldsskóla er tengiliður farsældar starfsmaður skólans þar sem barnið er í.
  • Börn sem falla á milli ofangreinds hafa aðgang að tengilið hjá félagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar.

Hlutverk tengiliðar er:

  • að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi
  • að rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn
  • að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns
  • að aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns
  • að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns
  • að koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra
  • að taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á

Stigskipting þjónustu

Þjónusta fyrir börn er veitt á þremur þjónustustigum. Gott er að hafa í huga að þjónustan er stigskipt en ekki mál barnsins sem slíkt. Þannig geta börn fengið þjónustu á fleiri en einu þjónustustigi.

Málstjóri og stuðningsteymi

Þegar barn þarf fjölþætta þjónustu á 2. eða 3. stigi fær það málstjóra frá félagsþjónustu eða barnaverndarþjónustu. Málstjóri hefur hagsmuni barnsins að leiðarljósi og starfar í samráði við foreldra og barn.

Landsteymið

Ef þig vantar meiri upplýsingar eða stuðning en tengiliður farsældar og úrræði Hafnarfjarðarbæjar hafa boðið upp á getur þú haft samband við Landsteymið. Þar geta börn, foreldrar, kennarar og starfsfólk skóla á öllum skólastigum fengið á einum stað stuðning og ráðgjöf um úrræði, leiðir og lausnir þvert á kerfi.