Farsæld barna
Öll börn eiga rétt á að blómstra og fá þá hjálp sem þau þurfa til að takast á við áskoranir lífsins. Farsældarlögin tryggja að þú og barnið þitt fáið aðgang að réttum stuðningi á réttum tíma.

Hvernig fær barnið mitt stuðning?

Það er einfalt að leita aðstoðar og þú þarft ekki að vera með lausnirnar á hreinu. Það er nóg að hafa áhyggjur eða spurningar.

Yngri börn (fyrir leikskólagöngu)

Þú getur rætt við starfsfólk á þinni heilsugæslu.

Önnur börn

Ef barnið þitt er ekki í þessum hópum geturðu haft samband við félagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar.

Hvað gerir tengiliður farsældar?

Tengiliður farsældar er fyrsti snertiflötur þinn og stuðningur. Hlutverk hans er að hafa hag barnsins í forgrunni og vinna með ykkur.
Hlustar á þig og veitir upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði.
Skipuleggur stuðninginn í samráði við þig og barnið.
Hjálpar þér að koma málinu af stað og fá mat á þörfum barnsins.

Hvað gerist næst?

Eftir að þú hefur samband er þörf barnsins og fjölskyldunnar metin. Í skólunum starfa farsældarteymi þar sem koma saman tengiliður farsældar, umsjónarkennari eða deildarstjóri og aðrir sérfræðingar eftir þörfum, til dæmis skólasálfræðingur.

Þið búið saman til áætlun um næstu skref. Áætlunin er svo endurmetin reglulega til að tryggja að hún skili árangri. Ef ekki, er ný leið fundin í sameiningu.

Hvaða stuðningur er í boði?

Stuðningurinn er fjölbreyttur og sniðinn að þörfum hvers barns. Allir skólar í Hafnarfirði bjóða upp á mörg úrræði sem þú getur kynnt þér nánar á vefsíðu hvers skóla. Hafnarfjarðarbær býður líka upp á ýmis úrræði til að styðja við börn og fjölskyldur þeirra.

Ef áskoranirnar eru miklar eða sérhæfðari getur farsældarteymið, í samráði við þig, aðstoðað við að leita eftir stuðningi frá Barnavernd eða BUGL.

Fagaðilar tala saman

Þú getur óskað eftir að þjónustan sem barnið fær sé samþætt. Það þýðir einfaldlega að allir fagaðilar sem hjálpa barninu þínu vinna saman sem eitt teymi og deila upplýsingum. Þannig er tryggt að allir stefni að sama markmiði. Það er alltaf þitt val hvort þú viljir samþættingu og þú getur óskað eftir henni hvenær sem er í ferlinu.

Þegar barnið þarf stuðning frá mörgum stöðum í einu – til dæmis frá skóla, heilsugæslu og félagsþjónustu – er alltaf mælt með samþættingu. Þá er skipaður málstjóri, oftast frá félagsþjónustunni, sem verður þinn helsti tengiliður. Málstjórinn heldur utan um stuðningsáætlunina og samskipti milli aðila þannig að barnið fái þá hjálp sem það þarf án hindrana.

Úrræði Hafnarfjarðarbæjar

Hafnarfjarðarbær býður upp á ýmis úrræði til að styðja við börn og fjölskyldur þeirra.
Prosperity - Category
  • Allt
  • Athuganir
  • Fræðsla og ráðgjöf til skóla
  • Námskeið
  • Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Námskeið
Forsjáraðilar
PMTO foreldranámskeið

PMTO foreldranámskeið er fyrir forsjáraðila barna sem sýna minni háttar frávik í hegðun. Námskeiðið er kennt einu sinni í viku í 8 vikur. Það er í 2 klst. í senn og er kennt seinni part dags. Námskeiðsgjaldi er stillt í hóf. Fjöldi þátttakenda í hverjum hópi eru 20 forsjáraðilar. PMTO námskeið hentar forsjáraðilum barna á aldrinum 4-12 ára.

Námskeið
Forsjáraðilar
PMTO hópmeðferð – PTC

PMTO hópmeðferð hentar forsjáraðilum barna á aldrinum 4-12 ára þar sem frávik í hegðun er orðin töluverð. Kennt er einu sinni í viku í 10–14 vikur í 1,5 klst. í senn. Hringt er í forsjáraðila eftir hvern tíma þar sem farið er yfir stöðuna. Námskeiðið fer ýmist fram á vinnutíma eða seinni part dags og er gjaldfrjálst. Fjöldi þátttakenda í hverjum hópi eru 12-14.

Námskeið
Forsjáraðilar
PMTO einstaklingsmeðferð

Meðferðin er fyrir forsjáraðila barna á aldrinum 4-12 ára þar sem frávik í hegðun eru orðin yfirgripsmikil. Á þessu stigi hefur þriðja stigs þjónusta oft verið virkjuð í máli barnanna og fjölskyldna þeirra (eins og barnavernd eða BUGL). Kennt er á vinnutíma einu sinni í viku í klukkustund í senn í 20-30 vikur. Hringt er á milli tíma þar sem farið er yfir stöðuna. Meðferðin er gjaldfrjáls.

Námskeið
Klókir litlir krakkar

Forvarnarnámskeiðið Klókir litlir krakkar er námskeið fyrir forsjáraðila 3-7 ára barna sem eru í áhættuhópi fyrir að þróa með sér kvíðaraskanir. Námskeiðið miðar að því að fræða forsjáraðila um eðli kvíða og kenna þeim leiðir til að takast á við kvíðahegðun barna sinna og auka sjálfstraust þeirra. Vonast er til að með slíku forvarnarnámskeiði verði hægt að minnka kvíðahegðun þeirra og í sumum tilfellum koma í veg fyrir að þau þrói með sér kvíðaröskun seinna meir.

Hvert námskeið er 12 klukkustundir og skiptist í 6 hluta. Kennt er á vinnutíma. Námskeiðsgjaldi er stillt í hóf. Mikilvægt er að forsjáraðilar mæti í alla tímana og mælt er með því að báðir forsjáraðilar sæki námskeiðið. Rík áhersla er lögð á umræður og virka þátttöku forsjáraðila til að tryggja að efnið nýtist hverjum og einum sem best. Milli tíma fást forsjáraðilar við heimaverkefni sem snúa að því að vinna með kvíðaeinkenni hjá börnunum.

Námskeið
Foreldrar í forystu

Námskeiðið Foreldrar til forystu (e. Parent led) er ætlað forsjáraðilum 8-12 ára barna með kvíðavanda. Námskeiðið er í 5 skipti yfir 8 vikna tímabil. Forsjáraðilar eru fræddir um eðli kvíða og þeim kenndar aðferðir til að hvetja börnin til að takast smám saman á við kvíðavekjandi aðstæður. Í upphafi námskeiðs fá forsjáraðilar lesefni og vinnublöð. Í lok hvers tíma er lagt fyrir heimaverkefni sem forsjáraðilar vinna með börnum sínum á milli tíma.

Á námskeiðinu fá forsjáraðilar fræðslu um kvíðaeinkenni og fjallað er um góðar leiðir til að takast á við kvíða. Á námskeiðinu er einnig fjallað um hvernig forsjáraðilar þjálfa börnin sín í að hugsa á raunsæjan hátt og fara í stigvaxandi berskjöldun þar sem börnin mæta óttanum í litlum skrefum. Á seinni hluta námskeiðsins er fjallað um hvernig á að viðhalda árangri og takast á við bakslag. Námskeiðið er haldið í Hafnarfirði, á vegum skrifstofu mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðarbæjar.

Námskeið
PEERS námskeið

Peers er félagsfærninámskeið ætlað börnum sem eiga í erfiðleikum með félagsleg samskipti og vinatengsl. Námskeiðið er 14 vikur, einu sinni í viku, 90 mínútur í senn. Sami forsjáraðili verður að koma með barni í að minnsta kosti 11 af 14 skiptum. Ef fjölskyldan missir af fleiri en þremur tímum eða af fyrstu tveimur tímunum er þátttaka útilokuð. Mikilvægt er að barn taki sjálfviljugt þátt og mæti.

Markhópur námskeiðsins eru börn á aldrinum 12-18 ára með greiningu um röskun á einhverfurófi án alvarlegra frávika í vitsmunaþroska. Valið er inn í hópinn eftir ákveðnum forsendum (til dæmis aldri og greiningu) en ekki eftir tímaröð á biðlista. Forsenda umsóknar er sú að forsjáraðilar óski eftir eða samþykki umsókn á námskeiðið.

Megin áhersla námskeiðs er að efla færni í samskiptum. Á námskeiðinu er farið í hvernig hægt er að velja viðeigandi vini, hvernig takast á við stríðni, einelti, ágreining og fleira. Forsjáraðilum er kennt hvernig þeir hjálpa barninu að eignast og halda vinum með því að vera þjálfarar þeirra á milli tíma. Börnunum er kennd ákveðin færni sem þau fá svo tækifæri til að æfa. Í lok hvers tíma fá þau heimaverkefni þar sem þau æfa þessa færni enn betur undir handleiðslu forsjáraðila.

Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Einstaklingsstuðningur

Stuðningsaðili er hluti af félagslegri stuðningsþjónustu fyrir fötluð börn og unglinga eða börn sem búa við félagslega krefjandi aðstæður. Markmiðið með þjónustunni er að rjúfa félagslega einangrun, efla lífsleikni, samfélagsþátttöku og efla börn til aukinnar sjálfshjálpar.

Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf

Markmið með foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf er að aðstoða og leiðbeina forsjáraðila eða vistunaraðila við að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði og aðbúnað barna. Stuðningur er veittur innan sem utan heimilis, s.s. með ráðgjöf. Allur stuðningur miðar að því að mæta mismunandi þörfum forsjáraðila og að valdefla þá í hlutverki sínu. Tímabundinn samningur er gerður með tilsjónaraðila, foreldrum og málstjóra eða ráðgjafa fjölskyldu- og barnamálasviðs, þar sem unnið er eftir fyrirfram skilgreindum markmiðum.

Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Stuðningsfjölskylda

Markmið með stuðningsfjölskyldu er að styðja forsjáraðila eða vistunaraðila í uppeldishlutverki sínu, veita þeim hvíld eða styrkja stuðningsnet barns eftir því sem við á og auka möguleika þess á félagslegri þátttöku. Markhópurinn eru börn með fötlun og börn sem búa við félagslega krefjandi aðstæður. Málstjóri eða ráðgjafi á skrifstofu fjölskyldu- og barnamálasviðs getur virkjað úrræðið út frá faglegu mati og vinnslu máls.

Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Beanfee hugbúnaður

Beanfee er íslenskur hugbúnaður og aðferðafræði sem styður við atferlisþjálfun einstaklinga. Hugbúnaðurinn byggir meðal annars á aðferðum atferlisgreiningar og beitir umbunarkerfi og afreksmerkjum til þjálfunar á jákvæðri hegðun. Í tilfelli grunn- og leikskóla er unnið með nemendum, foreldrum og kennurum til að ná settum markmiðum á persónulegan hátt. Beanfee hefur sýnt sig að auka námsþátttöku og draga úr hegðunarvandamálum í skólastofum.

Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Ráðgjafi í hagnýtri atferlisgreiningu

Ráðgjafi í hagnýtri atferlisgreiningu vinnur að hagnýtingu á lögmálum hegðunar. Hann reynir að öðlast betri skilning á því hvað spáir fyrir og hefur áhrif á hegðun einstaklinga. Eftir að ákveðið virknimat á hegðun og umhverfi skjólstæðings hefur átt sér stað leggur ráðgjafinn til íhlutun sem miðar að því að styrkja jákvæða hegðun, draga úr óæskilegri hegðun eða bæði.

Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Samvinna eftir skilnað

Foreldrar geta fengið sérhæfða skilnaðarráðgjöf í Hafnarfirði til að stuðla að betri foreldrasamvinnu. Ráðgjöfin er með hagsmuni barnsins að leiðarljós og er veitt til að koma í veg fyrir eða draga úr ágreiningi foreldra sem standa í skilnaði eða hafa gengið í gegnum skilnað.

Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Innherji

Innherji er starfstengt nám sem býðst nemendum frá 14 ára aldri (8. bekk) sem þurfa á námsaðlögun að halda og eru með skerta stundaskrá. Nemanda gefst kostur á vinnu í nokkrar klukkustundir á viku (hámark 12 klst.) og þiggur fyrir það laun sem greidd eru af Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Vinnan telst hluti af skólatíma nemanda.

Ef grunnskólanemandi starfar í Innherja samhliða grunnskóla er mögulegt að náms- og starfsráðgjafi framhaldsskólans fái heimild til að framlengja veru hans í verkefninu á framhaldsskólaárum hans til 18 ára aldurs.

Innherji er samstarfsverkefni grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar, námsráðgjafa og mennta- og lýðheilsusviðs. Ábyrgðaraðili er Íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðar og framkvæmdaraðili er Vinnuskóli Hafnarfjarðar í samstarfi við viðkomandi grunnskóla.

Sótt er um í gegnum náms- og starfsráðgjafa.

Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Hópastarf fyrir 6-18 ára

Markmið hópastarfs er að rjúfa félagslega einangrun og efla lífsleikni og samfélagsþátttöku. Lögð er áhersla á félagsfærni og athafnir sem krefjast samskipta auk þess að kenna barni að vera í hópi og efla sjálfstraust þess og jákvæð samskipti. Hópastarf er liður í að efla einstaklinga til aukinnar sjálfshjálpar.

Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Skammtímadvöl fyrir fötluð börn
  • Markmið með skammtímadvöl er að gefa börnum kost á að dvelja tímabundið utan heimilis síns þegar um er að ræða miklar stuðningsþarfir umfram jafnaldra og til að styðja við fjölskyldu barnsins.
  • Um skammtímadvöl gilda reglur um skammtímadvalir fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Stuðningur fyrir börn og forsjáraðila
Notendasamningar

Einstaklingar og barnafjölskyldur sem metnar hafa verið í þörf fyrir stuðnings- og/eða stoðþjónustu geta sótt um að gera notendasamning þar sem fjallað er um framkvæmd þjónustunnar. Um notendasamninga gilda reglur um notendasamninga.

Athuganir
Athugun sálfræðings

Sálfræðingar gera sálfræðilegar athuganir á nemendum ef grunur hefur vaknað um frávik í vitsmunaþroska þeirra, eða áhyggjur eru af hegðun og líðan. Í framhaldi athugunar veita sálfræðingar ráðgjöf til starfsfólks skóla og foreldra og vísa nemendum til frekara mats og meðferðar til annarra sérfræðinga eða stofnana ef þörf er á. Sótt er um athugun hjá sálfræðingi í gegnum skóla nemandans.

Athuganir
Athugun talmeinafræðings

Talmeinafræðingar gera athuganir á börnum ef grunur hefur vaknað um frávik í málþroska eða framburði. Í framhaldi athugunar veita talmeinafræðingar ráðgjöf til starfsfólks skóla og foreldra og vísa börnum í talþjálfun til sjálfstætt starfandi talmeinafræðings ef þörf er á. Sótt er um athugun hjá talmeinafræðingi í gegnum skóla barnsins. Samþykki foreldra fyrir athugun þarf alltaf að liggja fyrir.

Fræðsla og ráðgjöf til skóla
Sálfræðingar

Sálfræðingar sinna fræðslu til foreldra og starfsfólks leik- og grunnskóla í formi fræðsluerinda og námskeiða. Boðið er upp á fræðslu fyrir skóla varðandi kvíða og ADHD einkenni og boðið er upp á námskeið fyrir foreldra vegna kvíðaeinkenna hjá börnum og unglingum.

Fræðsla og ráðgjöf til skóla
Talmeinafræðingar

Talmeinafræðingar sinna fræðslu til foreldra og starfsfólks leik- og grunnskóla í formi fræðsluerinda og námskeiða. Einnig sinna þeir ráðgjöf varðandi einstaka börn innan skólanna.

Fræðsla og ráðgjöf til skóla
Kennsluráðgjafi leik- og grunnskóla

Telji leik- og grunnskólar sig þurfa kennslustuðning eða -ráðgjöf á stigi 1 er hægt að leita til kennslufulltrúa leik- eða grunnskóla ráðgjöf varðandi skipulag á stoðþjónustu skólans, dagskipulag deilda eða fræðslu til starfsfólks vegna margbreytilegs nemendahóps. Einstök mál sem eru innan Brúarteymis geta einnig sótt um ráðgjöf til kennslufulltrúa með samþykki foreldra.

Fræðsla og ráðgjöf til skóla
Kennsluráðgjafi fjölmenningar fyrir leik- og grunnskóla

Leikskóli
Kennsluráðgjafi fjölmenningar veitir ráðgjöf og fræðslu fyrir kennara, skóla og foreldra af erlendum uppruna. Hann hefur yfirsýn yfir námslega og félagslega stöðu erlendra nemenda í leikskólum. Verkefni hans felur í sér stuðning til erlends starfsfólks. Kennsluráðgjafi vinnur við þróun móttökuáætlunar í leikskólum og málstefnu Hafnarfjarðar.

Grunnskóli

  • Fræðsla fyrir starfsmannahópa varðandi málefni nemenda af erlendum upppruna, eins og varðandi móttöku, foreldrasamstarf, kennsluaðferðir og námsefni, styðjandi námsumhverfi og fleira.
  • Ráðgjöf til skólastjórnenda og starfsmanna varðandi fjölmenningarlegt skólastarf, móttökusamtölu, skipulag ÍSAT kennslu, foreldrasamstarf, fyrirlögn Stöðumats og fleira.
  • Ráðgjöf vegna kennsluhópa og einstakra nemenda.
Fræðsla og ráðgjöf til skóla
Verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags

Réttindafræðsla fyrir börn í leik- og grunnskólum og starfsfólks Hafnarfjarðar vegna innleiðingar á verkefninu barnvænt sveitarfélag og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Fræðsla og ráðgjöf til skóla
Verkefnastjóri PMTO og SMT

PMTO stendur fyrir „Parent Management Training – Oregon aðferð“, sem er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. PMTO er gagnreynd aðferð sem dregur úr hegðunarerfiðleikum barna og unglinga og eflir foreldra í hlutverki sínu. Fjölbreytt úrræði, námskeið og ráðgjöf er í boði fyrir foreldra.

SMT-skólafærni er hliðstæð aðferð og PMTO þar sem lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda.

Fræðsla og ráðgjöf til skóla
Litli hópur

Verkefnin eru meðal annars að veita ráðgjöf til skóla vegna hópa barna þar sem grunur er um áhættuhegðun eða hópamyndanir. Ráðgjöf er veitt til að efla samstarf, upplýsingaflæði og forvarnaraðgerðir í nærumhverfi barna. Samráð og samtal á sér stað við þverfaglegan hóp sem kemur að málefnum barna og ungmenna.

Fræðsla og ráðgjöf til skóla
Faghópur forvarna

Faghópur forvarna er þverfaglegur hópur aðila sem fylgja eftir helstu forvarnaáherslum Hafnarfjarðarbæjar og er skipaður af fræðsluráði. Hópurinn hittist tvisvar til fjórum sinnum á ári og fer yfir stöðu forvarnaverkefna sem fræðsluráð hefur sett á oddinn og kemur með tillögu að úrbótum sé þess þörf.

Ábendingagátt