Eldra fólk

Markmiðið er að eldra fólk í Hafnarfirði geti búið sjálfstætt sem lengst. Í boði er félagsstarf, hreyfing og fjölbreyttur stuðningur. Þjónandi leiðsögn er höfð að leiðarljósi.

Hjúkrunarheimili

Í Hafnarfirði eru rekin tvö hjúkrunar- og dvalarheimili: Sólvangur og Hrafnista.

Á Sólvangi og Hrafnistu er veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta allan sólarhringinn. Þar er boðið upp sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Íbúum er boðið upp á hollt og næringarríkt fæði auk þess sem þau hafa kost á því að sækja fjölbreytta og gefandi afþreyingu. Á báðum heimilum er einnig boðið upp á dagdvöl.

Hrafnista

Hrafnista í Hafnarfirði er stærsta öldrunarheimili landsins. Á heimilinu búa 199 manns. Markmiðið er að veita hjúkrun og umönnun miðað við þarfir hvers og eins, styrkja fólk til sjálfshjálpar og auðvelda þeim að aðlagast breyttum aðstæðum. Mikil áhersla er lögð á að starfsfólk kynnist vel heimilisfólki, bakgrunni þess og lífssögu.

Á Hrafnistu er meðal annars boðið upp á fótsnyrtingu, hárgreiðslu, verslun, handavinnu og sálgæslu. Félags- og menningarstarf er í boði, auk þess sem guðsþjónustur og skemmtikvöld eru haldin reglulega. 

Á lóð heimilisins, við Hraunvang 1–3, eru 64 leiguíbúðir í eigu Naustavarar. Íbúar í leiguíbúðunum geta sótt ýmis konar þjónustu til Hrafnistu. 

Til að fá meiri upplýsingar er hægt að skoða vefsíðu Hrafnistu eða senda tölvupóst á hvildhh@hrafnista.is.

Sólvangur

Á hjúkrunarheimilinu Sólvangi búa um 70 manns. Áhersla Sólvangs er að skapa notalegan heimilisbrag og rík áhersla er lögð á að viðhalda góðum samskiptum við fjölskyldur heimilisfólks.

Á Sólvangi er vinnustofa þar sem ávallt ríkir gleði. Þar er sungið, lesið og sagðar sögur sem allir taka þátt í. Vikulega er ýmist félagsstarf, eins og bíó, söngur og leikfimi. Árlega er haldið þorrablót, bingó, Sólvangsdagurinn og grillveisla. 

Gott samstarf er við nærumhverfið og stofnanir bæjarins, þar má nefna samstarf við leik- og grunnskóla bæjarins, en nemendur koma reglulega í heimsókn á Sólvang. Þessar heimsóknir eru mjög ánægjulegar og gefa heimilisfólki nýjar upplifanir um leið og nemendur kynnast lífi heimilisfólks Sólvangs. 

Til að fá meiri upplýsingar er hægt að skoða vefsíðu Sólvangs eða senda tölvupóst á solvangur@solvangur.is.

Að sækja um á hjúkrunarheimili

Ef önnur þjónusta bæjarins, eins og stuðningsþjónusta og dagdvöl, er ekki nóg fyrir þig, getur þú sótt um á hjúkrunarheimili.

Fyrst þarf að sækja um færni- og heilsumat. Þú fyllir út umsóknina, skannar og sendir hana með tölvupósti á vistunarmat@heilsugaeslan.is eða sendir með bréfapósti á:

Færni- og heilsumatsnefnd höfuðborgarsvæðisins
Þönglabakki 1
109 Reykjavík

Þegar umsókn hefur verið samþykkt færðu sent svarbréf heim til þín með lista yfir hjúkrunarheimili og umsóknarblað. Þú fyllir það út og sendir aftur með tölvupósti eða bréfpósti.

Ef þú ert með fyrirspurn um umsóknarferlið, umsóknir í vinnslu eða vilt fá ráðgjöf um val á hjúkrunarheimili, geturðu haft samband við nefndina alla virka daga kl. 11–12 í síma 513 5000 eða með tölvupósti á vistunarmat@heilsugaeslan.is.