Vesturkot er orðinn heilsueflandi vinnustaður

Fréttir

Leikskólinn Vesturkot hefur svarað viðmiðum Embætti landlæknis, Vinnueftirlitsins og Virk varðandi heilsueflandi vinnustað og þætti sem taldir eru hafa mest áhrif á heilsu og vellíðan starfsfólks á vinnustað. Fleiri vinnustaðir innan Hafnarfjarðarbæjar eru langt komnir með innleiðingu á aukinni heilsueflingu.

Fleiri vinnustaðir Hafnarfjarðarbæjar langt komnir í svörun viðmiða og innleiðingu markmiða

Leikskólinn Vesturkot hefur svarað viðmiðum Embætti landlæknis, Vinnueftirlitsins og Virk varðandi heilsueflandi vinnustað og þætti sem taldir eru hafa mest áhrif á heilsu og vellíðan starfsfólks á vinnustað. Viðmiðin, sem eru átta, snúa að umhverfi, stjórnunarháttum, starfsháttum, vellíðan, hreyfingu og útiveru, áfengi, tóbaki og vímuefnum, vinnuumhverfi og hollu mataræði.  Vesturkot hefur greint þessi viðmið, gert heilsumarkmið (heilsustefnu) og sett upp tímasetta aðgerðaáætlun sem miðar að því að ná skilgreindum markmiðum. Aðgerðir eru hafnar, heilsustefnan verður endurskoðuð og uppfærð árlega og Vesturkot þar með orðinn heilsueflandi vinnustaður. Fleiri vinnustaðir innan Hafnarfjarðarbæjar eru langt komnir með innleiðingu á aukinni heilsueflingu.

Hléæfingar, göngutúrar og sippukeppni milli deilda eru meðal þeirra laufléttu heilsueflandi hugmynda sem verið er að vinna með á Vesturkoti

Hléæfingar, göngutúrar og sippukeppni milli deilda eru meðal þeirra laufléttu heilsueflandi hugmynda sem verið er að vinna með á Vesturkoti.

Almenn jákvæðni og leikgleði einkennir innleiðingarvinnuna

Hafnarfjarðarbær ákvað á árinu 2022 að gerast heilsueflandi vinnustaður. Ráðinn var inn verkefnastjóri heilsueflingar haustið 2022 og hefur sveitarfélagið síðan þá lagt aukinn kraft og mikinn metnað í að allir vinnustaðir sveitarfélagsins verði heilsueflandi. Nú þegar hafa margir starfsstaðir hafið innleiðingu en Vesturkot er fyrsti vinnustaður Hafnarfjarðarbæjar sem fær formlega titilinn heilsueflandi vinnustaður. Embætti Landlæknis býður upp á nokkrar heilsueflandi leiðir fyrir vinnustaði háð starfsemi og eðli starfsstaðanna sem um ræðir. Þannig geta til að mynda skólar sveitarfélagsins valið hvort þeir verði heilsueflandi vinnustaðir, heilsueflandi leikskólar eða heilsueflandi grunnskólar. Verkefnin eru keimlík í eðli sínu en áhersla á starfsfólk og líðan þeirra einkennandi við innleiðingu á verkefninu heilsueflandi vinnustaður. Leikskólarnir Smáralundur og Hamravellir hafa um árabil verið heilsueflandi leikskólar og eru nú að skoða það að gerast heilsueflandi vinnustaðir og leggja þannig til viðbótar aukna áherslu á vellíðan starfsfólks.

Heilsueflandi vinnustaður er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda, starfsfólks og samfélagsins. Í gegnum verkefnið leita starfsstaðir leiða til að bæta vinnuskipulag og vinnuumhverfi, hvetja til virkrar þátttöku og stuðla að þroska og vellíðan einstaklingsins.

Innilega til hamingju starfsfólk á Vesturkoti!

Ábendingagátt