Laugardaginn 7. október kl. 14-16 bjóðum við ykkur velkomin á opna smiðju í Hafnarborg, þar sem listamaðurinn Sindri Ploder og sýningarstjórinn Íris Stefanía Skúladóttir munu taka á móti gestum á sýningunni Ef ég væri skrímsli, sem nú stendur yfir í safninu í tengslum við List án landamæra. Þar býðst gestum tækifæri til að spjalla við sýningarstjóra og listamann um sýninguna og verkin, sem og að teikna sitt eigið skrímsli. Þá verður hægt að fá ráðgjöf frá listamanni og jafnvel mun hann teikna sitt eigið skrímsli með gestum.

Á sýningunni sjálfri eru gestir leiddir inn í mynd- og hugarheim Sindra, sem var fyrr í ár útnefndur listamanneskja hátíðarinnar Listar án landamæra 2023. Sindri hefur teiknað skrímsli frá tólf ára aldri og notast helst við penna og pappír en hefur í seinni tíð einnig fært teikningar sínar yfir í þrívídd og gert skúlptúra í við, keramik, mósaík og textíl. Verk Sindra eru mörg hver sjálfsmyndir, þar sem glettni, dirfska og ögrandi gleði leynir sér ekki. Þá endurspeglast blikið í augum Sindra í teikningunum sem fanga áhorfandann við fyrstu sýn.

Sindri Ploder (f. 1997) hefur tekið þátt í fjölda sýninga síðan árið 2016, nú síðast í sýningunni Brot af annars konar þekkingu sem sýnd var í Nýlistasafninu í ársbyrjun. Þá tók Sindri fyrst þátt í samsýningu á vegum List án landamæra árið 2017, þar sem hann vann með hönnuðinum Munda Vonda. Eins tók Sindri þátt í List án landamæra árin 2019, 2020 og 2022, þar sem hann sýndi teikningar, ullarmottu og viðarskúlptúra. Árið 2019 tók hann listaáfanga í Myndlistaskólanum í Reykjavík og var í kjölfarið með verk á samsýningu í skólanum en Sindri hefur síðan verið í listnámi hjá Fjölmennt.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Ábendingagátt