320 nemendur í Listdansskóla Hafnarfjarðar

Fréttir

Yfir 300 nemendur æfa dans hjá Listdansskóla Hafnarfjarðar. Gullfalleg danssýning Listdansskólans þann 1. maí varð kveikjan að því að bæjarstjórinn stökk í heimsókn og kynnti sér starfsemina.

Listdansskólinn vinsæll í Hafnarfirði

„Sýningin var meiriháttar, virkilega gaman að sjá hversu mikið nemendurnir, sem voru á öllum aldri, lögðu sig fram,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri sem stökk í á dögunum í heimsókn og kynnti sér starfsemi Listdansskóla Hafnarfjarðar. Þar æfa yfir 300 nemendur dans. „Frábært að sjá hvernig skólinn vex og dafnar, virkilega faglegt og öflugt starf sem fer fram hér.“

Dans í yfir 30 ár

Starfsemi Listdansskóla Hafnarfjarðar hófst í janúar 1994. Þá stunduðu 12 nemendur nám við skólann. Í fyrra voru þeir orðnir um 320 talsins sem sýnir að þar er boðið uppá fjölbreytt, metnaðarfullt og hvetjandi dansnám rétt eins og markmið skólans segir til um.

Listdansskólinn lætur ekki mikið yfir sér. Hann er staðsettur að Helluhrauni 16-18, við hlið Bónus í Hraun vestur. Gengið er upp stigann og við taka þrír veglegir danssalir og búningsaðstaða. Þar er sumarstarfið nú að taka yfir.

Kata Vignisdóttir, skólastjóri, dóttir hennar Matthea og Erna Matthíasdóttir aðstoðarskólastjóri tóku á móti bæjarstjóra.

Yndislegt sumar framundan

Sumarönnin hófst 13. maí og lýkur 14. júní. Viku löng dans og leikjanámskeið fyrir börn á aldrinum 7-13 ára hefjast svo um miðjan júní og eru í gangi til lok ágúst. Hópur nemenda, TEAM LDH sem er keppnislið skólans, er svo á leið í undankeppni alþjóðlegu keppninnar; Global Dance Open þann 25. maí.

„Sumarið er yndislegt. Þá er dagskráin öðruvísi. Sumarönn, dans og leikjanámskeið og æfingar fyrir mótið. Hóparnir fullir og allt iðar af lífi,“ segir Kata.

„Við byrjum svo haustönnina í byrjun september,“ segir hún. „Við erum ánægð með samstarfið við Hafnarfjarðarbæ og stefnum á að hafa opinn dag í haust svo Hafnfirðingar geti skoðað starfsemina.“

Já, dansinn auðgar lífið. Ekki spurning.

 

 

Ábendingagátt