35 ár af þýskri vináttu

Fréttir

Bæirnir Hafnarfjörður og Cuxhaven í Þýskalandi hafa nú um árabil ræktað með sér blómlegt vinabæjasamstarf sem þykir einstakt og þá ekki síst vegna umfangs þess og fjölbreytileika. Öflug og náin vinabæjartengsl milli Cuxhaven og Hafnarfjarðar þykja einstök og af mörgum talin einsdæmi í heiminum. 35 árum af vináttu er fagnað í ár.

Vináttan kristallast sterkt í blómlegu samstarfi og verkefnum

Bæirnir Hafnarfjörður og Cuxhaven í Þýskalandi hafa nú um árabil ræktað með sér blómlegt vinabæjasamstarf sem þykir einstakt og þá ekki síst vegna umfangs þess og fjölbreytileika. Hugmyndin að samstarfinu fæddist á sjávarútvegssýningu sem haldin var í Reykjavík haustið 1987 meðal manna sem þá voru í viðskiptatengslum vegna fyrirtækja í sjávarútvegi og vinnslu sjávarafurða í bæjunum báðum. Í þessum hópi var meðal annarra Rolf Peters sem síðar varð formaður Vinabæjafélagsins Cuxhaven-Hafnarfjörður. Rolf var þann 5. júlí 1999 sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir dugandi og einlæg störf sín í vinabæjartengslunum. Öflug og náin vinabæjartengsl milli Cuxhaven og Hafnarfjarðar þykja einstök og af mörgum talin einsdæmi í heiminum. 35 árum af vináttu er fagnað í ár.

Formlegt vinabæjarsamstarf frá og með hausti 1988

Vinabæjarsamstarfið var undirritað við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Cuxhaven þann 17. september 1988. Upp frá því hófst samtal um hugsanlegt samstarf og hefur samvinna bæjanna verið mikil og gefandi í æskulýðs- og íþróttamálum, mennta- og menningarmálum, á stjórnmálasviðinu og að ógleymdu viðskiptalífinu æ síðan. Þann 21. nóvember 1989 var vinabæjafélagið Cuxhaven stofnað og fyrir jólin 1989 gaf Cuxhaven Hafnfirðingum jólatré í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn og hefur nær undantekningarlaust síðan fært Hafnfirðingum jólatré að gjöf árlega. Jólatréð átti fyrst sinn stað á suðurhöfninni þar sem það lýsti upp skammdegið en hin síðari ár hefur upplýst tréð glatt gesti og gangandi í Jólaþorpinu á Thorsplani. Heimsókn íþróttahóps frá Cuxhaven árið 1990 markaði svo upphaf vinabæjaheimsókna milli bæjanna og hafa ófáir hópar síðan þá farið í slíkar ferðir.

Jólaljósin voru tendruð á Cuxhaventrénu við hátíðlega athöfn á opnunardegi Jólaþorpsins föstudaginn 17. nóvember 2023. Hér má sjá þau Wilhelm Eitzen formann vinabæjarfélags Cuxhaven-Hafnarfjörður, Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra og Clarissu Duvigneau sendiherra Þýskalands á Íslandi.

Hafnarfjörðurplatz og Cuxhavengata

Sem dæmi um afrakstur vinabæjarsamstarfsins má nefna að árið 1993 var vígt nýtt torg í miðborg Cuxhaven sem hlaut nafnið „Hafnarfjördurplatz“ og á Óseyrarsvæðinu í Hafnarfirði fékk við sama tækifæri ný gata nafnið „Cuxhavengata“. Í tilefni af 25 ára afmæli vinabæjarsamstarfsins, árið 2013, gaf þýska borgin Hafnarfjarðarbæ fjögurra metra háa eftirgerð úr timbri af „Kugelbake“ sem stendur við strandstíginn við höfnina. Frumgerðin er 30 metra hátt siglingarmerki sem reist var árið 1703 við ströndina nyrst í Neðra- Saxlandi þar sem áin Saxelfur rennur í Norðursjó. Kugelbake er borgarmerki Cuxhaven líkt og vitinn er merki Hafnarfjarðar. Söguskilti um vinabæjarsamstarfið var vígt við hátíðlega athöfn haustið 2022 og stendur skiltið við eftirgerðina í Hafnarfirði.

Cuxhavenlundur við Hvaleyrarvatn

Strax við stofnun vinabæjasamstarfsins árið 1988 var tekin ákvörðun um að stofna til svokallaðs „Cuxhavenlundar“ við Hvaleyrarvatn og hefur sú hefð skapast að þegar sendinefndir frá Cuxhaven koma hingað í heimsóknir gróðursetji fulltrúar þeirra hér tré þegar færi gefst enda hefur lundurinn stækkað mikið og gróið upp á undanförnum árum. Í lundinum má finna tvo minningarskildi um þá Jónas Guðlaugsson og Rolf Peters en báðir voru þeir lykilmenn í starfsemi vinabæjarfélaganna á árdögum þeirra og um árabil formenn félaganna hvor í sínu landi.

Takk Cuxhaven fyrir vináttuna og megi hún blómstra áfram!

Ábendingagátt