Á sjötta tug í viðtal við Valdimar á Thorsplani

Fréttir

Alls sóttu 55 þrjá opna viðtalstíma hjá bæjarstjóra á Thorsplani í morgun. Þetta var í þriðja sinn sem bæjarstjóri færir skrifstofuna út úr húsi og mældist það vel fyrir hjá þeim sem mættu.

Bæjarstjóri með pop-up skrifstofu á Thorsplani

Stöðugur straumur var í opinn viðtalstíma Valdimars Víðissonar bæjarstjóra í morgun á Thorsplani. Sum heyrðu af þessu uppátæki bæjarstjórans í Bítinu á Bylgjunni,  önnur sáu frétt á Facebook og enn önnur í afspurn enda í þriðja sinn sem hann heldur opinn fund á Thorsplani.

55 gestir á stuttum tíma

Alls sóttu 55 þessa þrjá opnu viðtalstíma Valdimars Víðissonar bæjarstjóra. Erindin voru fjölmörg. Valdmar er ánægður með vel heppnaða fundi.

„Virkilega góðir og gagnlegir fundir. Finnst mikilvægt að bæjarstjóri sé í góðu sambandi við íbúa og hef ég lagt mig fram við það að hitta fólk, mæta á fundi og viðburði og taka á móti fólki á skrifstofunni. Minni á að ég er með viðtalstíma alla þriðjudaga en það þarf að bóka í þá tíma,“ ritar hann á Facebook-síðu sína.

Fleiri fundir frá ágústmánuði

„Erindin voru fjölbreytt,“ lýsir hann einnig. „Rætt um gosbrunn á Víðistaðatúni, lóðamál, samgöngur, þjónusta við eldra fólk, akstursþjónusta fyrir fatlað fólk, aðbúnaður í bænum, ruslatunnur og margt fleira.“

Valdimar stefnir á að hafa fleiri fundi á Thorsplani í haust. „Ég finn að fólk kann að meta þetta framtak.“

Já, kaffið rann ljúft niður með kleinunum á Thorsplani í dag.

  • Viljirðu panta viðtal á þriðjudegi hringir þú  í síma 585 5506 og pantar tíma.
Ábendingagátt