Aldrei fleiri sótt um í verkhernum – Viltu aukahendur?

Fréttir

Aldrei hafa fleiri sótt um í Verkhernum og í ár. Verkherinn er atvinnuúrræði fyrir hafnfirsk ungmenni með skerta starfsgetu. Verkherinn leitar nú til fyrirtækja sem vilja fá áhugasöm ungmenni í vinnu sér að kostnaðarlausu. Þetta er vinn-vinn fyrir unga fólkið og fyrirtækin.

Verkherinn fyrir ungt fólk

„Verkherinn er atvinnuúrræði fyrir hafnfirsk ungmenni með skerta starfsgetu eða aukna þjónustuþörf á aldrinum 16-20 ára. Markmið Verkhersins er að aðstoða ungmenni við að taka sín fyrstu skref úti á vinnumarkaði. Hjá okkur fá ungmenni fræðslu og þjálfun í vinnusiðferði, fjármálalæsi og öðrum þáttum sem snerta þátttöku í atvinnulífinu,“ ritar Auður Björk Kvaran, forstöðumaður í Verkhernum, í nýjasta blaði Fjarðarfrétta, Hafnfirsk æska. Blaðið kom út 8. maí. Sjáðu Hafnfirska æsku blað Fjarðarfrétta hér.

„Verkherinn er starfandi yfir sumartímann og hefur undanfarin ár fjöldinn allur af ungmennum verið þátttakendur í Verkhernum. Ungmennunum gefst tækifæri til að spreyta sig á almennum vinnumarkaði og prófa að starfa á ólíkum vinnustöðum. Undanfarin ár hafa ungmennin fengið tækifæri til að starfa í verslunum, leikskólum, leikjanámskeiðum og í ýmsum fyrirtækjum bæjarins. Ungmennin fá með sér starfsmann sem veitir þeim stuðning í starfinu þannig að ungmennið geti skilað fullu vinnuframlagi í sínu verkefni,“ segir hún.

Aldrei fleiri umsóknir

„Umsóknir í Verkherinn hafa aldrei verið fleiri en í ár og fögnum við því að fleiri ungmenni hafi áhuga á að starfa með okkur yfir sumartímann,“ ritar Auður. Til að bjóða upp á fjölbreytta möguleika fyrir alla þátttakendur í sumar þurfi Verkherinn að vera í samstarfi við töluverðan fjölda vinnuveitenda. „Fyrirtækjum og öðrum vinnuveitendum gefst þannig kostur á að vera í samstarfi við Verkherinn og fá í lið með sér fleiri starfsmenn til að sinna fjölbreyttum verkefnum.“

Verkefni ungmennanna geti verið mjög ólík milli starfsstaða, en vinsæl verkefni hafi verið að sinna verkefnum utandyra, taka til einfaldar pantanir, fylla á vörur í hillum, bílaþvottur og ýmislegt fleira. „Við höfum verið í samstarfi við fjöldann allan af hafnfirskum fyrirtækjum gegnum tíðina með góðum árangri, og leitum nú að fleiri fyrirtækjum til að ganga til liðs við okkur fyrir sumarið.“

  • Ef þú vilt fá áhugasöm ungmenni með reynslumiklu starfsfólki í vinnu í sumar þér að kostnaðarlausu, þá er Verkherinn tilbúinn til að koma og létta undir með ykkur. Endilega sendið okkur línu á verkherinn@hafnarfjordur.is.

 

 

 

Ábendingagátt