Ánægja með Hafnarfjörð sem búsetustað eykst

Fréttir

Nærri níu af hverjum tíu íbúum eru ánægðir með Hafnarfjörð sem búsetustað eða 88%. Þá eru 86% íbúa ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar. Ánægjan eykst um 7 prósentustig milli ára. Heildaránægjan með Hafnarfjörð hefur aukist og niðurstöðurnar afar ánægjulegar.

Íbúar ánægðir með bæinn sinn

Samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar er Hafnarfjarðarbær yfir heildarmeðaltali í samanburði sveitarfélaganna í ellefu af tólf þáttum könnunarinnar og í meðaltali í þeim tólfta. Niðurstöður könnunar Gallup voru kynntar á fundi bæjarráðs í morgun.

Niðurstöður 2024

„Þetta eru virkilega ánægjulegar niðurstöður. Lögð hefur verið áhersla á aukna þjónustu við fjölskyldufólk, eldra fólk og fatlað fólk og bætt hefur verið hressilega í þegar kemur að betri aðstöðu til íþróttaiðkunar. Niðurstöður þjónustukönnunarinnar endurspegla það,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri.

Halda áfram og horfa fram á við

„Við ætlum okkur að sjálfsögðu að halda áfram á þessari braut og horfa til þeirra þátta þar sem við sjáum að gera megi betur og finna leiðir til þess.“

Heildaránægjan með sveitarfélagið sem stað til að búa á mælist 88% og 76% eru ánægð með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið. Ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunar mælist 86%, ánægja með menningarmál 74% og þjónustu grunnskóla 66%. Alls 67% eru ánægð með þjónustu leikskóla og 63% með þjónustu við barnafólk.

Alls eru 60% ánægð með þjónustu við eldri borgara, 63% með sorphirðu og 52% með skipulagsmál. Alls eru 48% ánægð með þjónustu við fatlað fólk og 76% með gæði umhverfis í nágrenni við heimilið. Tækifæri til úrbóta liggja víða og þá sérstaklega í þeim þjónustuþáttum sem skora hvað lægst ár hvert innan allra sveitarfélaganna.

Stærstu breytingar milli ára:
  • Ánægja með þjónustu við barnafólk jókst úr 55% í 63%
  • Ánægja með leikskóla fór úr 64% í 67%
  • Ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunar úr 79% í 86%
  • Ánægja með þjónustu við eldri borgara úr 53% í 60%
  • Ánægja með þjónustu við fatlaða úr 40% í 48%

Gallup gerir árlega þjónustukönnun og nú meðal nítján stærstu sveitarfélaga landsins. Spurt er um viðhorf til þjónustu sveitarfélaganna í ýmsum málaflokkum bæði út frá reynslu og áliti.

Könnunin var gerð dagana 22. nóvember til 6. janúar um síma og net. Alls voru tæp fimmtán þúsund í nítján sveitarfélögum landsins, 18 ára og eldri. Alls svaraði 451 könnuninni í Hafnarfirði.

Niðurstöður gefa hugmynd um ánægju íbúa með ákveðna þjónustuþætti óháð því hvort viðkomandi nýti sér þjónustuna eða ekki. Samhliða fást upplýsingar um þjónustuþætti sem gott væri að rýna betur.

Við erum stolt af niðurstöðunni.

 

Ábendingagátt